Kannski  finnst mönnum alltaf jafn slæmt að þurfa að reisa fangelsi. Finnst fjármunum hins opinbera betur varið í annað á góðæristímum þegar rífandi gangur er í öllu. Þegar hjól atvinnulífsins ganga mjúklega og hratt og hver verkfús hönd  hefur meira en eitt verk að vinna. Hverjum skyldi þá detta í hug að fara byggja hús til að loka menn inni í? Og í kreppu þegar þung krumla atvinnuleysis og samdráttar leggst yfir menn og byggð, hverjum dettur í hug að reisa fangelsi?

Það hefur verið sagt að aðbúnaður fanga og fangelsa endurspegli menningarstig hverrar þjóðar.
Byggingasaga fangelsa á Íslandi hefur verið hálfgerð raunasaga. Hún geymir þó góðan vilja sem dugði reyndar skammt þegar á hólminn var komið vegna þess að höndin var hikandi og ákvörðunum iðulega skotið á frest. Það var alltaf eitthvað annað sem hafði forgang eða þá að óviðráðanlegar aðstæður skutu upp kolli og settu öll áform á hliðina.
Fyrsta fangahúsið sem reist var á Íslandi var Múrinn þar sem stjórnarráðið er nú. Hann reistu meðal annars fangar sem voru náðaðir að verki loknu. Vistin í þessu húsi var oftast ömurleg og kom fyrir að menn sultu þar til dauðs. Hegningarhúsið var tekið í notkun 1875 vegna þess að staða fangelsismála var gjörsamlega fráleit.  Þegar það var orðið of lítið og dapurleg vistarvera vegna viðhaldsleysis hnutu yfirvöld um „steinkassa“  fyrir austan fjall eins og Jónas frá Hriflu orðaði það í umræðu á Alþingi 1928. Steinkassinn var fokhelt sjúkrahús sem stóð nánast úti í móa við Eyrarbakka. Þar var vinnuhæli  sett á laggirnar. Brotamennirnir áttu að vinna í íslenskri sveit og kynnast hollustu sveitalífsins. Fangarýmum að Litla-Hrauni hefur verið í þrígang fjölgað og síðast með myndarlegum hætti 1995.
Í eðli sínu eru fangelsi ekki jákvæðar stofnanir í samfélaginu. Það er aldrei jákvætt að svipta fólk því dýrmætasta sem það á, frelsinu. En fangelsi er hróp samfélagsins gegn óæskilegri hegðun og krafa um að aga verði beitt. Um réttmæti þess að beita samfélagslegum aga með þessum hætti geta menn svo deilt. Fangelsi er í sjálfu sér einföld aðferð: hinn brotlegi er tekinn úr umferð um lengri eða skemmri tíma og þar með tekinn frá honum dýrmætur tími til að ráðstafa lífi sínu eftir eigin höfði.
Nú eins og oft áður glíma menn við þrengsli í fangelsum og ófremdarástand sem skapast í kjölfarið. Það reynir bæði á fanga og þau sem starfa innan fangelsanna. Fangelsin eru þétt setin af ýmsum ástæðum. Þar er fyrst til að taka að eftir margfrægt hrun efnahagslífsins var öllum áætlunum um uppbyggingu fangelsa ýtt til hliðar. Það voru markvissar áætlanir sem átti að hrinda í framkvæmd enda hafði fjöldi fangelsisrýma ekki haldist í hendur við íbúaþróun í landinu. Auk þess má nefna að dómar hafa þyngst á undanförnum árum enda þótt viðurkennt sé að þyngri dómar fæli menn ekki frá afbrotum. Í þriðja lagi virðist skriða erlendra brotamanna hafa riðið yfir.
En það eru til fleiri úrræði en að reisa fangelsi eða leigja húsnæði undir þá starfsemi. Um áratugaskeið hefur farið fram rafrænt eftir með dómþolum utan fangelsa í Bandaríkjunum og Bretlandi. Svíar hafa haft slíkt eftirlit allt frá árinu 1994 og það gefist vel. Rafrænt eftirlit felst í því að rafrænum útbúnaði er komið fyrir í ökkla-eða armbandi á dæmdum manni. Þetta rafband ber hann t.d. í ákveðinn tíma í lok afplánunar áður en að reynslulausn kemur og er frjáls ferða sinna að vissu marki. Getur stundað vinnu sína eða nám sé því að skipta og er samhliða gert að sækja ýmis stuðningsnámskeið. Rafrænt eftirlit er hægt að útfæra á ýmsa vegu og leita í smiðju þeirra þjóða sem mesta reynslu hafa af beitingu þess. Rekstrarbúnaður getur að öllu leyti eða að hluta til verið í eigu hins opinbera eða einkaaðila. Auðvitað kostar þetta fé. Allt eftirlit kostar fjármuni - og fangelsiskerfið er meðal annars að miklu leyti eftirlitskerfi. En rafrænt eftirlit er nútímaleg ögunarleið sem hægt er að beita í mörgum tilvikum. Slíku eftirliti hefur reyndar oft verið ýtt úr vör til að létta á fangelsum og komast hjá því að byggja fleiri. Rafrænt eftirlit er leið sem skilar í mörgum tilvikum meiri arði til samfélagsins, samfélagsþátttöku hinna dæmdu og tækifærum til betra lífs. Þá sýnir sænsk rannsókn að það dregur ögn úr endurkomu dómþola í fangelsi sæti þeir rafrænu eftirliti. Það er umhugsunarvert þótt aðrar eldri rannsóknir hafi ekki gefið það ótvírætt til kynna.
Breyta verður lögum svo unnt sé að taka upp rafrænt eftirlit með dómþolum og hyggja að ýmsu sem því tengist. Taka verður til dæmis afstöðu til upplýsingaskyldu til fórnarlambs viðkomandi brotamanns sem ber rafbandið.  
Bráðabirgðalausnir eru alltaf varasamar einfaldlega vegna þess að þær geta orðið að varanlegri vandræðalausn. Þess vegna verður að skoða alla kosti á krepputíma og forðast allt fum.
Samfélag sem vill kenna sig við lög og reglu, gott siðferði og trúverðugleika má ekki bjóða dæmdum einstaklingum upp á það að bíða von úr viti eftir því að taka út dóm sinn. Ekki bara hinum dómfelldu mönnum heldur og aðstandendum þeirra.

Sr. Hreinn S. Hákonarson