Mikilvæg Afstaða til fimmtán ára

Fimmtán ár eru í dag síðan hópur fanga á Litla-Hrauni tók sig saman og stofnaði félagið Afstöðu á grundvelli heimildar í lögum þess efnis að fangar geti kosið sér talsmenn til að vinna að málefnum fanga og koma fram fyrir þeirra hönd. Afstaða hefur frá upphafi sinnt því grunnhlutverki afalúð en á liðnum árum hefur orðið mikil útvíkkun á umfangi starfseminnar og verkefnum samhliða fjölgað gríðarlega.

Guðmundur Ingi Þóroddson formaður Afstöðu

Árangurinn af starfinu er ótvíræður og sýnir sig kannski best í auknu og nánu samstarfi með fangelsismálayfirvöldum, sveitarfélögum og ráðuneytum. Pyntinganefnd Evrópuráðsins fundaði með Afstöðu í fyrravor og sögðu nefndarmenn að félagið væri einstakt, allavega í Evrópu ef ekki á heimsvísu. Það að fangar hafi myndað félag sem hafi raunverulegt vægi í stjórnkerfinu sætir því tíðindum og komust ábendingar Afstöðu inn í skýrslu pyntinganefndarinnar sem skilað var til stjórnvalda.

Umræddur fundur er aðeins lítið dæmi af þeim fjölmörgu verkefnum sem Afstaða tókst á hendur í fyrra en sjálfboðaliðar félagsins standa í ströngu alla daga. Laust á litið leituðu nærri 800 einstaklingar til félagsins á árinu 2019 og úrlausnarefnin voru margvísleg. Í seinni tíð eru það nefnilega ekki eingöngu fangar sem leita til Afstöðu heldur ekki síður aðstandendur, tilvonandi og fyrrverandi fangar. Velferðarmálin eru ofarlega á baugi og sýnir sig kannski helst í því að bæði velferðarnefnd Reykjavíkurborgar og Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra hafa nýverið ákveðið að styrkja Afstöðu til áframhaldandi góðra verka í málaflokknum.

Því skal haldið til haga að á fimmtán ára starfstíma Afstöðu er þetta fyrsti styrkurinn sem ráðuneyti veitir félaginu, þrátt fyrir fögur fyrirheit frá þeim fleirum. Jafnframt hafa önnur sveitarfélög en Reykjavíkurborg hafnað styrkbeiðnum, þrátt fyrir að félagið veiti íbúum þess nauðsynlega aðstoð. Afstaða horfir björtum augum á framtíðina og markmiðið er að halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið á undanförnum árum. Enn óskar félagið þess að komast á fjárlög enda væri þá hægt að renna styrkari stoðum undir reksturinn og koma sérfræðingum, félagsfræðingum og sálfræðingum í hlutastörf en sem stendur kaupir Afstaða slíka þjónustu dýrum dómum.

Á meðal þeirra mála sem eru í forgrunni á afmælisárinu má nefna atvinnuþátttöku fyrrverandi fanga og húsnæðismál. Afstaða hefur átt fundi með yfirvöldum og einkaaðilum vegna þessara mála og horfir vonandi til betri tíðar í málaflokkunum. Þá stefnir félagið á að auka enn samskipti við félagsþjónustur sveitarfélaganna og efla tengsl við sérfræðinga á sviði fangelsismála og heilbrigðis- og velferðarmála. Afstaða hefur á undanförnum árum fest sig í sessi og sinnir mikilvægu starfi. Þess vegna vonumst við til þess að mæta meiri velvilja hjá hinu opinbera þegar kemur að fjárveitingum til starfseminnar.

Vernd tekur undir það að Afstaða hafi á undanförnum árum látið til sín taka og oft á tíðum hefur Afstaða hreyft við viðhorfum hins opinbera og almennings til málefna fanga að eftir því hefur verið tekið. Vernd fangahjálp hefur átt náið og farsælt samstarf við Afstöðu og óskar samtökunum til hamingju með 15 ára starfsafmælið

 

Þráinn Farestveit

Framkvæmdarstjóri