Ágætu frambjóðendur til Alþingis 2013!

Neysla áfengis, tóbaks og annarra ávana-og vímuefna snertir öll svið samfélagsins og skaðleg áhrif hennar valda samfélaginu tjóni. Stjórnvöld hafa það hlutverk að marka opinbera stefnu í ávana- og vímuefnamálum og forvörnum og tryggja framkvæmd hennar, m.a. með nauðsynlegu fjármagni. En til þess að sú stefna verði annað en stafur á bók verður hún að njóta stuðnings borgaranna, eða hinnar svokölluðu grasrótar. Þar geta félagasamtök leikið mikilvægt hlutverk.

Við minnum á að félagasamtök hafa lengstum haft frumkvæði í ávana- og vímuvörnum á Íslandi og saga forvarna á Íslandi einkennst af frumkvæði og virkni almannasamtaka með þeim ágæta árangri að áfengisneysla og reykingar Íslendinga eru með því minnsta sem þekkist í Evrópu og staða okkar varðandi önnur vímuefni er sömuleiðis góð í samanburði við nágrannaþjóðir. Þennan ávinning og stöðu verðum við að verja.

Við minnum á að félagasamtök búa yfir margvíslegum möguleikum í forvörnum. Félagasamtök leggja með starfi sínu, samfélagsumræðu og verkefnum menningarlegan og lýðræðislegan grundvöll að velferð samfélagsins og eflingu félagsauðs. Þau eru þverskurður af samfélaginu með tiliti til aldurs, kyns og búsetu félagsfólks. Félagasamtök byggja tilvist sína á sjálfsprottinni félagslegri þörf og starf þeirra grundvallast á samfélagslegri ábyrgð, samlíðan og borgaravitund.

Félagasamtök eru í náinni snertingu við grasrótina og daglegt líf fólks. Fyrir vikið hafa þau annars konar möguleika í samfélaginu en stjórnvöld. Þau geta t.d. nýtt tengslanet sín til þess að virkja sjálfboðaliða í nærsamfélaginu á skömmum tíma og þátttaka þeirra getur haft margfeldniáhrif í samfélaginu. Félagasamtök hafa einnig meira frelsi, svigrúm og sveigjanleika til athafna en stjórnvöld. Þau eru skapandi afl sem getur boðið fjölþættar lausnir.

Samstarfsráð um forvarnir hvetur stjórnmálaflokka og verðandi fulltrúa þeirra á Alþingi Íslendinga að setja forvarnir í forgang. Við köllum eftir því að stjórnmálaflokkar og stjórnvöld hafi skýra stefnu í þessum málum og skipi þeim þann sess sem þeim ber í velferð þjóðarinnar og bjóðum fram þátttöku okkar og liðsinni við mótun forvarnastefnunnar og framkvæmd hennar.

fh. Samstarfsráðs um forvarnir
Hildur Helga Gísladóttir,
formaður

Samstarfsráð um forvarnir, er samstarfsvettvangur 22 félagasamtaka sem vinna að áfengis-, tóbaks- og vímuefnaforvörnum á vettvangi mannræktar, velferðar, félagsmála, samfélagsþróunar, uppeldis- og skólamála, íþróttamála og tómstundastarfs. Samstarfið byggist á virðingu fyrir fjölbreytni, ólíkri aðkomu samtaka í forvörnum og mismunandi áherslum.
----------------------------------------------
Bindindissamtökin IOGT - Blátt áfram - Brautin, bindindisfélag ökumanna - FÍÆT Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa - Fræðsla og forvarnir FRÆ - Heimili og skóli - Hiv-Ísland - KFUM-K - ÍSÍ - Krabbameinsfélagið - Kvenfélagasamband Íslands - Lífsýn - Núll prósent - SAMFÉS - Samhjálp - Samtök foreldra gegn áfengisauglýsingum - Samtök skólamanna um bindindisfræðslu – SSB - SKÁTARNIR - UMFÍ - Ungmennahreyfing IOGT - Vernd, fangahjálp - Vímulaus æska/Foreldrahús - Þjóðkirkjan