Frú Hanna Johannessen lést 25. apríl síðastliðinn. Þar er gengin sómaprúð kona og mikill mannvinur. Hanna var þátttakandi í starfi Verndar allt frá því að fangahjálpin var stofnuð árið 1960. Hún sat í jólanefnd Verndar og varð formaður hennar 1967 og var það allt til dauðadags. Hlutverk nefndarinnar er að afla jólagjafa handa föngum og matar fyrir jólafagnað Verndar en hann sækja skjólstæðingar samtakanna og þau sem minna mega sín. Jólafagnaðinn skipulagði hún af natni og útsjónarsemi. Síðar hófst samstarf um jólafagnaðinn við Hjálpræðisherinn að frumkvæði Hönnu. Á það samstarf brá aldrei skugga.
Hanna gekk að starfi jólanefndarinnar með miklum skörungsskap og eljusemi. Hún fór á fund einstaklinga og fyrirtækja til að útvega það sem þurfti. Gefendur fundu hlýju hennar og umhyggju fyrir hinum bágstöddu. Þessari konu var ekki hægt að neita um aðstoð til slíkra mannúðarstarfa. Það var því mikill happafengur að hafa Hönnu í forsvari fyrir jólanefndina.
Þegar samtökin héldu upp á 45 ára afmæli sitt var Hanna gerð að heiðursfélaga Verndar í þakklætis- og virðingarskyni fyrir frábærlega vel unnin störf.
Þá nokkuð var liðið á aðventuna ár hvert, kom Hanna ásamt samstarfskonum sínum með fangið fullt af varningi sem gefa átti föngum og einstæðingum á jólum. Hanna stýrði verki af ljúfmennsku og snerpu. Hún var einbeitt í orði og verki. Ákveðin ef með þurfti og skilningsrík. Sjálf hafði hún ekki hátt um þetta mannúðarstarf sitt heldur vann það í raun og veru sem hvert annað skyldustarf. Hvert aðfangadagskvöld svo áratugum skipti sótti hún jólafagnað Verndar og Hjálpræðishersins. Þetta var hluti af jólahaldi hennar og fjölskyldunnar. Þeir feðgar vissu að í augum hennar var þetta heilög skylda og stundum fóru þeir með henni. Hún deildi út gjöfum með starfsfólki Hjálpræðishersins og gætti þess vandlega að allir fengju gjöf. Enginn mátti verða útundan. Tók svo þátt í dansi í kringum jólatréð með skjólstæðingunum og söng hástöfum. Þar voru allir eitt og ekkert skildi manneskjunar að á helgu aðfangadagskvöldi.
Síðasta aðfangadagskvöld stóðum við bæði á sviðinu í Herkastalanum og mæltum nokkur orð til viðstaddra. Það hvarflaði ekki að mér að þetta væri síðasti jólafagnaðurinn sem hún tæki þátt í. Hún var full þakklætis eins og hún sjálf hefði hvergi nærri komið.
Seinna um kvöldið sátum við saman yfir kaffibolla og spjölluðum saman. Umkomulaus kona með ungan son sinn nam staðar við borðið og þakkaði fyrir sig á tungumáli sem við ekki skildum. Hanna faðmaði þau ástúðlega að sér og klappaði drengnum á kollinn. Þau gengu út í kyrrlátt aðfangadagskvöldið. Hanna var hugsi á svip og skyndilega hvarf hún á vit heimahaga sinna og fór að segja frá æsku sinni heima á Hólsfjöllum, systkinahópnum stóra og sveitalífinu. Um stund ómaði ljúfur kliður frá jólum norður í landi fyrir margt löngu. Stjórn Verndar kveður heiðursfélaga sinn með söknuði og virðingu.
Guð blessi minningu frú Hönnu Johannessen.
Hreinn S. Hákonarson, formaður