Um­boðs­maður Al­þingis heim­sótti Litla-Hraun

Skúli Magnússon segir mikilvægt að einangrun eða sóttkví sé ekki lengri en þörf er á hjá föngum. 
Fréttablaðið/Eyþór

Margir greindust á Litla-Hrauni í síðustu viku með Co­vid-19. Um­boðs­maður Al­þingis kannaði að­stæður í fangelsinu í gær. Hann segir að­gengi fanga að skimun mikil­vægt svo að ein­angrun lengist ekki ó­þarf­lega.
Um­boðs­maður Al­þingis kom at­huga­semdum sínum varðandi ein­angrun og sótt­kví fanga á Litla-Hrauni munn­lega til fangelsis­mála­yfir­valda eftir heim­sókn em­bættisins í fangelsið í gær.

Við væntan­lega lokum málinu með bréfi en helstu at­huga­semdum hefur verið komið á fram­færi við fangelsis­mála­stjóra og for­stöðu­mann fangelsisins og það er góður vilji til sam­vinnu af þeirra hálfu,“ segir Skúli Magnús­son, um­boðs­maður Al­þingis.

Til­efni heim­sóknarinnar var meðal annars fréttir um heim­sókna­bann og tak­markanir í fangelsinu eftir kóróna­veiru­smit meðal fanga í síðustu viku. Rætt var við for­stöðu­mann fangelsisins, annað starfs­fólk og svo við fanga, bæði í sótt­kví og ein­angrun.

„Það er búið að haga málum þannig að fangar geta verið eins mikið og hægt er frjálsir ferða sinna og þannig búið að skipta fangelsinu upp að menn eru annað hvort í ein­angrun saman eða í sótt­kví saman,“ segir Skúli. Allt fangelsið var í annað hvort sótt­kví eða ein­angrun.

Í fáum til­fellum var þetta ekki hægt. Því hafa nokkrir fangar verið inni í klefa og ekki getað farið fram eða notað sam­eigin­lega að­stöðu í ein­angruninni.

Skúli segir helst kvartað um töf á prófum til að stað­festa smit eða losa fanga úr sótt­kví. Því hafi upp­hafs­degi smits seinkað eða sótt­kví verið lengri en nauð­syn­legt var.

„Ein­angrun og sótt­kví kemur öðru­vísi niður á mönnum sem eru frelsis­sviptir en þeim sem eru frjálsir ferða sinna,“ segir Skúli. Því hafi verið skoðað hvort sótt­kví og ein­angrun væri sem minnst í­þyngjandi.

„Að mínu mati var þetta mjög brýnt og það verður að hafa það í huga með þessa menn að þeir eru í tals­vert annarri stöðu en al­mennir borgarar sem geta sjálfir leitað eftir þessum prófum eða haft frum­kvæði að því,“ segir Skúli. Á­ríðandi sé að fangelsis­mála­yfir­völd sjái til þess að það sé gert eins skjótt og hægt er.

Tags