Vernd fangahjálp vekur hér með athygli á meinbug á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum um málefni fanga og þeirra sem afplána refsingu á Íslandi sem kemur niður á mannréttindum þeirra og er þeim fjötur um fót. Réttindamál fanga og þeirra sem afplána refsingu virðast oft vera afgangsstærð og mikil þörf á að taka til endurskoðunar. Í þessu máli bendi ég á að hér er eingöngu verið að ræða hugtök og orðanotkun tengdum þessum málaflokki. Engin er fangi nema í fangelsi sé.

 

Hugtök

 

Vernd hefur barist fyrir því í langan tíma að notkun hugtaka um fullnustu refsinga taki breytingum í samræmi við breyttar útfærslur fullnustu. Ekki gangi að kalla einstaklinga sem eru að fullnusta dóma utan fangelsa fanga. Mjög víða í stjórnsýslunni eru settir varnaglar eða stofnanir neita að fylgja stjórnsýslulögum þar sem einstaklingar sem til þeirra leita eru samkvæmt þeirra túlkun enn fangar og séu þess vegna á ábyrgð Fangelsismálastofnunnar. Sveitafélög og stofnanir hafa þannig reynt að komast hjá þeim skyldum sem þau/þær bera gagnvart þessum einstaklingum. Til þess að hægt sé að átta sig á þessum mikla mun á því að geta yfir höfuð verið fangi eða einstaklingur sem er að ljúka fullnustu refsingar utan fangelsa set ég eftir farandi fram. Það er nauðsynlegt að orðið fangi sé tekið út úr textum stjórnsýslu/reglugerðum og lögum þar sem það á ekki við þannig að ekki sé hægt að brjóta á réttindum þeirra sem fullnusta dóma utan fangelsa eins og gert er með geðþóttaákvörðunum. Þetta á við einstaklinga sem að dvelja á Vernd, fara í meðferð, fullnusta á rafrænu eftirliti eða í samfélagsþjónustu. Oftar en ekki heyri ég í samtölum mínum við stofnanir, ráðuneyti, fagaðila sveitafélaganna þegar leitað er eftir þjónustu er spurt, er hann/hún ekki fangi eða fyrrverandi fangi þegar það á ekki við. Þessu verður að breyta þannig að réttur þeirra sé tryggður til jafns við aðra.

 

Vernd er ekki fangelsi

 

Vernd rekur áfangaheimili og hefur gert í 60 ár og er með samning við Fangelsismálastofnun á grundvelli 31. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016. Í umræðu um fangelsismál hefur því stundum verið haldið fram að Vernd sé fangelsi. Samkvæmt lögum um fullnustu refsinga er ljóst að Vernd er ekki fangelsi í merkingu laganna. Lengi var deilt um réttindi dómþola á Vernd varðandi endurhæfingalífeyri og örorkustyrki. Samkvæmt úrskurði úrskurðanefndar velferðarmála mál 152/2009 gegn Tryggingastofnun ríkisins og niðurstöðu úrskurðarnefndar almannatrygginga mál 146/2009 var niðurstaðan sú að einstaklingur sem fær að ljúka afplánun á áfangaheimili, t.d. Vernd, með rafrænu eftirliti, samfélagsþjónustu eða þegar afplánun lýkur fær örorkustyrk sinn í gang aftur svo framarlega að réttur sé enn til staðar. Brjóti einstaklingur reglur og verði vistaður í fangelsi að nýju falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar. Vandamálið virðist því vera ruglingur með hugtök laganna, einkum tegund refsingar, afplánun og fangelsi, því samkvæmt lögunum er unnt að afplána fangelsisrefsingu á annan hátt en með vistun í fangelsi. Þá er hugtakanotkun laganna á skjön við daglegt mál og veldur það oft ruglingi. 

 

Tímarammi

 

Ef málið er skoðað út frá tíma þá getur dómþoli verið í 30 mánuði utan fangelsa sé horft til þeirra sem lengstan tímann hafa. Á Vernd getur einstaklingur nú dvalið lengst í 18 mánuði og fer svo þaðan á rafrænt eftirlit í 12 mánuði. Það gefur auga leið að úrræðið sem er íboði er ætlað að gefa einstaklingum möguleika á að aðlagast samfélaginu að nýju í umhverfi þar sem boðið er upp á meðferð og endurhæfingu. En víða er pottur brotinn í lögum og reglugerðum. Ef skoðaðar eru reglur Vinnumálastofnunnar má sjá að í IX. kafla laga nr. 54/2006 er fjallað um tilvik sem leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Í 53. gr. segir:  "Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi sínu með dómi telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á þeim tíma er hann tekur út refsingu sína í fangelsi. Hið sama á við um þann sem hefur verið sviptur frelsi sínu með úrskurði dómara eða tekur út refsingu sína í samfélagsþjónustu." Þessi lög eru einnig látin gilda um fullnustu rafræns eftirlits og dvalar á Vernd þó þeirra sé ekki getið í lögunum. Hér er eitthvað sem ekki gengur upp. Einstaklingur sem hefur verið á Vernd og verið í vinnu í allt að 18 mánuði en missir vinnuna er algerlega réttindalaus samkvæmt þessu. Honum er gert að greiða skatta og skyldur á meðan á dvöl stendur en öðlast ekkert nema uppsöfnuð réttindi. Í þessu dæmi hljótum við að vera sammála um að breytinga er þörf og að samfélagsþjónusta og vistun á Vernd eða fullnusta undir rafrænu eftirliti er ekki sambærilegt því að vera vistaður í fangelsi. Ég er nokkuð viss um, að við gerð þessara laga hafi löggjafinn ekki ætlað lögunum að hafa þessi áhrif. Samfélagsþjónustu sem getið er í lögunum hefur í flestum tilvikum mjög takmörkuð áhrifa á atvinnuþátttöku þeirra sem henni gegna enda um örfáa klukkutíma á viku að ræða. Það eitt og sér er gerir texta um samfélagsþjónustu 53. gr. nánast óskiljanlegan í því ljósi. Vernd bendir á að þegar dómþolar taka út refsingu utan fangelsa t.d. hjá Vernd, þurfa þeir að stunda vinnu, vera í starfsendurhæfingu og greiða fyrir húsnæði, fæði, heilbrigðisþjónustu o.s.frv., greiða skatta og útsvar af tekjum sínum og ber að framfæra sig sjálfa og fjölskyldur sínar nákvæmlega eins og aðrir íbúar sveitarfélaga. Einnig eru margir í virkri atvinnuleit á þeim tíma sem úttekt fer fram með rafrænu eftirliti, samfélagsþjónustu eða dvöl á Vernd. En flestir eru þó í fullri vinnu.

 

Aðlögun

 

Mikilvægt er skera úr um það hvort einstaklingur sem velur þessa leið geti talist sviptur frelsi sínu í skilningi laganna eins og hann væri í fangelsi (fangi) og hvort opinberir aðilar geti og hafi það í sinni hendi að túlka réttindi þeirra sem til þeirra leita eftir geðþótta. Stimplun setur mark sitt á einstaklinga um aldur og ævi, það er ekkert sem réttlætir það að kalla einstaklinga sem ekki eru fangelsi í textum eða orðum, fanga. Það er algerlega óásættanlegt.

 

 

 

 Þráinn Bj Farestveit