Starfsmaður Verndar fór í heimsókn í Neyðarskýlið Grandagarði 1a og fékk frábæra móttöku af starfsmanni neyðarskýlisins að Grandagarði en þar tók móti mér Írisi Ósk Ólafsdóttir teymisstjóri sem þekkir vel til starfsemi Verndar. Margir af gestum neyðarskýlanna eru fyrrverandi skjólstæðingar Verndar og vakti það áhuga okkar á að kynna okkur starfsemina betur. Þá hefur Vernd verið í góðu samstarfi við VoR-teymi Reykjavíkurborgar sem einnig hefur góða tengingu við Vernd og þá sem sækja sér þjónustu í Neyðarskýlin. Það var gott að sjá hversu vel er haldið utan um þá sem þjónustuna sækja og metnaður lagður í að öllum líði sem best. Húsnæðið er vel búið húsgögnum og aðstöðu til þess að mæta þörfum þeirra sem þangað koma.

Í Reykjavík eru þrjú neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk. Þau eru opin alla daga frá kl. 17:00 til kl. 10:00 næsta dag. Boðið er upp á kvöldverð og morgunmat auk stuðnings og þjónustu frá VoR-teymi og starfsfólki neyðarskýlanna. Ákveðinn fjöldi gistiplássa er í hverju neyðarskýli en engum er vísað frá.

 

Neyðarskýlið Grandagarði 1a, sem var opnað þann 13. nóvember 2019, er fyrir yngri heimilislausa karlmenn. Þar eru 15 gistipláss og er neyðarskýlið opið alla daga frá kl. 17:00 til kl. 10:00. Gestum neyðarskýlisins er boðið upp á húsaskjól, hvíld, hreinlæti, næringarríkan mat og fatnað. Einnig er boðið upp á nálaskiptiþjónustu og fræðslu fyrir þá sem það vilja. Hlutverk neyðarskýlisins er að veita heimilislausum karlmönnum með miklar og flóknar þjónustuþarfir tímabundna dvöl og aðstoð til að eiga sjálfstætt og innihaldsríkt líf. Markmiðiðið er að mæta þörfum dvalargesta á heildstæðan og einstaklingsmiðaðan hátt. Hugmyndafræði skaðaminnkunar er höfð að leiðarljósi í þjónustu við þá gesti sem dvelja í neyðarskýlinu. Markmið skaðaminnkandi inngripa er að aðstoða fólk við að halda lífi, að koma í veg fyrir óafturkræfan skaða, að viðhalda heilsu og að auka lífsgæði og heilsufar.

 

Neyðarskýlið Grandagarði | Reykjavik

  • Neyðarskýlið við Grandagarð er fyrir yngri heimilislausa karlmenn.
  • Við Grandagarð eru 15 gistipláss.
  • Neyðarskýlið er opið alla daga frá kl. 17:00 til kl. 10:00 næsta dag.

 

Gistiskýlið Lindargötu | Reykjavik

  • Gistiskýlið við Lindargötu er fyrir heimilislausa karlmenn.
  • Á Lindargötu eru 25 gistipláss.
  • Gistiskýlið er opið alla daga frá kl. 17:00 til kl. 10:00 næsta dag.
  • Boðið er upp á kvöldhressingu og morgunmat.

 

Konukot | Reykjavik

  • Fyrir heimilislausar konur.
  • Í Konukoti eru 12 gistipláss.
  • Konukot er opið alla daga frá kl. 17:00 til kl. 10:00 næsta dag.

Þráinn Farestveit