Rúmur helmingur íslenskra fanga er með grunnskólapróf eða minni menntun. Þetta kemur fram í samnorrænni rannsókn um menntun, menntunaraðstæður og námsáhuga á meðal fanga á Norðurlöndum sem Helgi Gunnlaugsson og Bogi Ragnarsson kynntu á Þjóðarspeglinum, félagsvísindaráðstefnu Háskóla Íslands, í gær.
Þeir fangar sem leggja stund á nám eru ólíklegri en aðrir fangar til að lenda aftur í fangelsi, samkvæmt erlendum rannsóknum. Þar með er menntun þeirra mikilvægur liður í því að draga úr ítrekunartíðni afbrota.
Magnús Einarsson, fangi og nemi á Litla-Hrauni, telur að of mikil áhersla sé lögð á bóknám í kerfinu. Hann segir marga samfanga sína vera mikla verkmenn og því aðstöðuleysi til fulls verknáms í fangelsum slæmt. „Ef fangelsisvistin á að vera til betrunar þá þarf að vinna með mönnum. Það er margt sem hér þarf að bæta bæði varðandi menntun og sálfræðiþjónustu til að svo geti orðið," segir Magnús.
Þegar rannsóknin var gerð lagði þriðjungur fanga stund á nám, þar af flestir á framhaldsskólastigi. Þó yfirleitt sé þar um fjarnám að ræða eru dæmi þess að vistmenn á Litla-Hrauni hafi fengið að stunda staðbundið nám í Fjölbrautaskóla Suðurlands, að sögn Inga S. Ingasonar, kennslustjóra á Litla-Hrauni.
24Stundir