Það er vaskur hópur karla og kvenna sem starfar innan fangelsa landsins. Störfin þar eru hvert öðru mikilvægara – því má ekki gleyma. Fangelsi eru viðkvæmir vinnustaðir þar sem starfsmenn eru í daglegum samskiptum við fólk sem orðið hefur fótaskortur í lífinu með margvíslegum hætti; sumir fangar kljást auk þess við ýmsan vanda af heilsufars- og félagslegum toga. Fólkið, fangarnir, er komið í aðstæður sem eru afar framandi venjulegu lífi. Það sem fangar finna mest fyrir í fyrstu eru hvers kyns skorður og hindranir sem draga úr almennum lífsgæðum. Gæði lífsins innan fangelsis eru rýr í roði miðað við frelsið sem býr utan múrsins. Það eitt og sér ásamt mörgu öðru hefur áhrif á fangana sem manneskjur. Þeir skoða líf sitt og gjörðir og takast á við ástæðu þess að vera komnir skyndilega bak við lás og slá – það geta hvort tveggja verið einfaldar ástæður sem og flóknar. En aðstæður þeirra eru mjög oft brenndar marki sárinda og kvíða.

Þetta er fangelsi. Stofnanir sem ríkið á og rekur.

Fangaverðir gegna mikilvægum störfum í þessum stofnunum hins opinbera. Störf þeirra fara ekki hátt en eru ábyrgðarmikil og vandasöm. Jafnframt geta þau verið býsna erfið á stundum. Ekki svo að skilja að beita þurfi oft líkamskröftum á vettvangi hversdagsins heldur eru samskipti innan þessa fyrirbæris mannlegs lífs sem heitir fangelsi, á köflum flókin og gera býsna miklar kröfur um innsæi í viðkvæmar aðstæður, skilning, fordómaleysi og væntumþykju en samtímis festu og ákveðni. Þolinmæði er sömuleiðis bráðnauðsynlegur eiginleiki. Fangaverðir sem búa ekki yfir slíkum kostum staldra ekki lengi við í starfi. Margir fangaverðir hafa sýnt einstaka samskiptahæfni og gert líf fanga bærilegra en ella. Þeir hafa eytt mörgum stundum í viðtöl við fanga þegar allir heimsins sérfræðingar eru víðs fjarri (með fullri virðingu fyrir þeim) og linað hugarkvalir þeirra og hvatt þá til betra lífs. Sú þjónusta hefur verið unnin í hljóði og kannski til fárra fiska metin. Margir fangar hafa látið þau orð falla að sumir fangaverðir hafi beinlínis bjargað lífi þeirra. Fangelsi með slíka fangaverði er betri staður en ella og mannbætandi.


En öll þau sem vinna með fólk vita að sú vinna tekur sinn toll af sálartetrinu. Hún getur verið sár og rífandi; njóti viðkomandi starfsmaður til dæmis ekki formlegrar og faglegrar handleiðslu af einhverju tagi getur hún smám saman sogið úr honum kraft og gert hann veikari fyrir.

Samskipti við fanga innan fangelsis ganga allajafna vel fyrir sig frá degi til dags. Fangelsin eru að mestu rammur karlaheimur og menn vissulega misfrekir til rýmis eins og gengur og gerist. Fangar virða góða og trausta fangaverði og geta eignast trúnað þeirra hvort heldur vörðurinn er nú karl eða kona. Oftar en einu sinni hefur til dæmis komið fyrir að fangi hefur séð góða foreldraímynd í fangavörðum og traust samband jafnvel haldist ævina út í sumum tilvikum. Fangaverðir hafa fundið til með föngum og viljað rétta þeim hjálparhönd þar sem vissulega skynsemi hefur ráðið för sem og væntumþykja ásamt hollri, foreldralegri hvatningu. Þau dæmi eru líka því miður til þegar maður bregst manni og slík brigð geta svo sannarlega reynt á og verið sár enda þótt menn forðist að taka vinnuna inn á sig. En kjarni málsins er ætíð sá að fangaverðir kynnast föngunum sem manneskjum, einstaklingum með vonir um betra líf og hamingjusamara, en ekki sem félagslegum fyrirbærum. Mannlegi þáttur má nefnilega aldrei glatast.  

Starfsfólk fangelsa vinnur krefjandi vinnu í fremstu víglínu og meðal annars með fíkniefnasjúka fanga sem margir ættu í raun og vera að vera á sjúkrahúsum. Þá er ekki síður ástæða til að nefna fanga sem glíma við geðræna sjúkdóma. Það er sá hópur í velferðarsamfélaginu sem enginn virðist vilja eiga. Dæmi eru um mjög geðsjúka menn í fangelsum sem þau beinlínis sitja uppi með og fá ekki geðlæknishjálp enda þótt margoft sé leitað eftir henni. Slíkt er auðvitað fyrst og síðast brot á mannréttindum hins sjúka, frelsissvipta einstaklings, og sömuleiðis eru fangaverðir settir í aðstæður sem þeir hafa eðli máls samkvæmt ekki hlotið neina klíníska menntun til að glíma við. Þrátt fyrir það hafa fangaverðir sinnt þessum sjúku og brotnu mönnum af mikilli manngæsku sem hvergi lærist nema í uppeldinu heima. Þeir eiga heiður skilinn fyrir framgöngu sína. Nú er þrengt að margvíslegri starfsemi fangelsa í landinu undir merki hagræðingar. Það gerir fangelsin að erfiðari vinnustöðum en ella og margt verður þyngra fyrir fæti. Fangaverðir finna fyrir því. Og þrengingin bitnar ekki síður á föngunum sjálfum. Lítið dæmi skal nefnt: Það kemur iðulega fyrir að sé fangavörður veikur að þá er brugðið á það ráð að loka vinnustað fanga eða fella niður hluta af daglegri útivist vegna þess að ekki eru til fjármunir til að kalla á afleysingarmann í stærsta fangelsi landsins.

Hvort tveggja er slæmt. Reyndar afleitt.

Fangelsi eru vinnustaðir fólks, frjálsra einstaklinga og ófrjálsra.

Ríkið á og rekur fangelsi landsins. Það verður að standa sómasamlega að því verki – er það ekki?

 

Hreinn S. Hákonarson,                                                                            fangaprestur þjóðkirkjunnar