Tekið hefur verið mikilvægt skref í fullnustu dóma utan fangelsa en fangelsismálastofnun hefur ákveðið að heimila þeim sem dvelja á Vernd að sækja um fjölskylduleyfi. Eru þessar breytingar gerðar í samstarfi við Vernd og gildir slíkt leyfi eingöngu fyrir þá dómþola sem í fangelsi höfðu áunnið sér þann rétt. Ekki er mögulegt að ávinna sér slíkan rétt eftir að dvöl er hafin á Vernd.

Þrátt fyrir að nafnið gefi það til kynna að eingöngu fjölskyldufólk fá slík leyfi er það ekki þannig, allir sem uppfylla slík skilyrði geta sótt um. Samkvæmt 59. gr. fullnustulaga sem fjallar um reglubundin dags- og fjölskylduleyfi en í 3. mgr. segir „Nú hafa fanga verið veitt dagsleyfi á samfelldu tveggja ára tímabili og hann staðist skilyrði þeirra og er þá heimilt að veita honum allt að 48 klukkustunda fjölskylduleyfi ef slíkt telst gagnlegt sem þáttur í refsifullnustu eða til að búa fanga undir að ljúka afplánun. Slíkt leyfi skal að jafnaði vera frá kl. 12 á hádegi til kl. 12 á hádegi“ í umsókn þar sem dómþoli óskar eftir slíku leyfi þarf dómþoli upplýsa því hvernig hann hyggst verja leyfinu, hvern hann hyggst heimsækja og hvar hann mun dveljast.

Áður en leyfi er veitt er heimilt að leita staðfestingar hjá viðkomandi á því að af heimsókn geti orðið. Fjölskylduleyfi mega vera mest fjögur á ári og þurfa 90 dagar að líða milli slíkra leyfa. Vernd telur að þetta skref sé mikilvægt í því að styðja við og aðstoða dómþola við það að aðlagast samfélaginu að nýju eftir langvarandi dvöl í fangelsi, jafnvel áratug hjá þeim sem lengst dvelja. Endurhæfing þeirra sem dvelja á Vernd er mikilvæg ekki síst í því ljósi að dvöl þeirra á Vernd getur varað í allt að 18 mánuði. Vernd fagnar þessum breytingum og samtökin eru þess full viss að einstaklingar sem fá slík leyfi munu standa sig.