Bólusetningar ganga vel í fangelsum landsins. Starfsmenn fangelsa hafa allir fengið a.m.k. fyrri bólusetningu og framundan eru bólusetningar fanga. Fangar á Litla-Hrauni og Sogni fá bólusetningu á morgun en áætlað er að fangar í móttökufangelsinu á Hólmsheiði fái bólusetningu síðari hluta næstu viku. Þetta er ákaflega ánægjulegt en engin smit hafa komið upp meðal starfsmanna eða vistmanna í faraldrinum hingað til en einn fangi var færður smitaður í gæsluvarðhald. Hlaut hann viðeigandi heilbrigðisþjónustu og breiddist smit ekki út meðal annarra í fangelsinu. Ástæða er til þess að þakka öllum fyrir samhent átak í sóttvörnum. Fangaverðir, heilbrigðisstarfsmenn, aðrir starfsmenn, fangar og Afstaða, félag fanga, hafa allir sem einn staðið vaktina vel í þessum faraldri.