Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, staðfestu í dag að ráðuneytin munu hafa með sér samstarf um að fjármagna rekstur svokallaðs meðferðargangs í Fangelsinu Litla-Hrauni.

Ráðuneytin munu ganga frá sérstöku samkomulagi sín á milli um fjármögnunina sem nemur 7,5 milljónum króna fyrir hvort ráðuneyti, samtals 15 milljónir króna það sem eftir er ársins 2008. Með þessari fjármögnun er rekstrargrundvöllur meðferðargangsins tryggður.

Samhliða þessum samningi mun Fangelsismálastofnun skilgreina markmið og árangursmælingu verkefnisins.

Þá verður sett á laggirnar samráðsnefnd ráðuneytanna sem mun vinna að heildarstefnumótun í þessum málum.