Eftirfarandi grein, sem fer hér á eftir í íslenskri þýðingu, er eftir Nora Volkow, forstjóra bandarísku alríkisstofnunarinnar NIDA, National Institute on Drug Abuse, og birtist áheimasíðu hennar þann 31. mars sl og samdægurs á vef Huffington Post.

„Aðeins um 10% þeirra 21 milljóna Bandaríkjamanna, sem talið er að þurfi aðstoð vegna áfengis- eða vímuefnafíknar, eiga kost á einhverri meðferð og stór hluti þeirrar meðferðar sem býðst stenst ekki kröfur um að veitt þjónusta sé byggð á rannsóknum og gagnreyndri þekkingu. Það eru margar ástæður fyrir þessari meðferðargjá sem tengdar eru eru kerfislægum þáttum og viðhorfum, þar á meðal fordómum, og það eru þröskuldar innan stofnana sem koma í veg fyrir að meðferð sé boðin fram og að fjármagn til að kosta meðferð vegna fíknsjúkdómum sé fyrir hendi. Önnur hindrun er sú staðreynd að þar til nú hafa fíknlækningar ekki verið viðurkennd grein sem læknar geta sérhæft sig í ¬– sú staðreynd hefur haft mikil áhrif á það hversu mikla og hversu góða menntun læknanemar hafa fengið og þau tækifæri sem unglæknum í starfsþjálfun býðst til að aðstoða sjúklinga sem fást við fíknsjúkdóma.

Mikilvægur áfangi náðist þann 14. mars 2016 þegar Stjórnarnefnd læknisfræðilegra sérgreina (American Board of Medical Specialties (ABMS)) tilkynnti formlega ákvörðun sína um að viðurkenna fíknlækningar sem viðurkenndra undirsérgrein á sviði læknisfræði. Þessi tíðindi hafa mikla þýðingu – bæði táknræna og raunhæfa – fyrir heilbrigðisþjónustuna og þá sjúklinga sem glíma við áfengis- og vímuefnasjúkdóma, þar með talið nikótínfíkn. Tíðindin staðfesta að fíknlækningar eru löggilt svið fyrir sérhæft nám og starf og þau munu gefa færi á að nýjar námsbrautir á sviði fíknlækninga fái faggildingu og að slíkum námsbrautum fjölgi.

Faggilding af hálfu ABMS á sviði læknisfræðilegar sérgreinar eða undirsérgreinar staðfestir sérþekkingu læknis á viðkomandi sérsviði. Faggilding stjórnarnefndarinnar er þannig mikils metið og nauðsynlegt vottorð hverjum þeim sem vill starfa sem sérfræðingur í lækningum og er staðfesting þess að viðkomandi læknir standist fyllstu kröfur sem hægt er að gera á sérsviði hans eða hennar. Nú þegar vottunin er orðin að veruleika hvað varðar fíknlækningar munu gæðakröfur á þessu mikilvæga sviði heilbrigðisþjónustu aukast og starfsliði heilbrigðiskerfisins bætist verðmætur liðsauki.

Þar til nú hafa einungis geðlæknar getað fengið vottaða sérþekkingu á fíknum. Fíkngeðlækningar hafa verið undirsérgrein geðlækninga fá árinu 1992. Slíkir læknar eru sérfræðingar í fíknsjúkdómum og þeim geðröskunum sem eru samfara þeim meðal þeirra sjúklinga sem einkum eru lagðir inn á geðdeildir sjúkrahúsa. Hin nýja undirsérgrein fíknlækningar mun hins vegar standa til boða læknum sem fengið hafa sérhæfingu á hvaða sviði læknisfræðinnar sem vera skal. Fíknlæknar verða sérfræðingar í fíknsjúkdómum og þeim sjúkdómum sem eru samfara þeim og koma fyrst og fremst fram hjá sjúklingum á stofnunum heilsugæslunnar.

Þar til nú hefur engin af þeim yfir 9.500 faggiltu námsbrautum sem til eru fyrir lækna í sérhæfðu framhaldsnámi boðið upp á nám í fíknlækningum. Þær námsbrautir þar sem fjallað er um fíknsjúkdóma í námskrám gera litlar kröfur til þjálfunar og vottunar til að tryggja að nemendum bjóðist námsefni um forvarnir og meðferð sem samrýmasrt bestu vísindalegu þekkingu á hverjum tíma. Hin nýja vottun fíknlækna mun skipta miklu máli til að tryggja að meðferð við fíknsjúkdómum í Bandaríkjunum byggist á bestu gagnreyndu þekkingu á hverjum tíma og sé í samræmi við þann skilning okkar á fíkn að hún sé sjúkdómur í heila.

Annað sem mun leiða af þessari þróun sem nú er orðin er að þetta mun greiða fyrir aðgengi sjúklinga sem leita til vottaðra sérfræðinga í fíknlækningum að sjúkratryggingum og jafnframt auðvelda útvegun fjármuna til að greiða laun lækna og annan kostnað við rekstur sjúkrastöðva, sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana sem bjóða heilbrigðisþjónustu á sviði fíknlækninga. Slíkt mun vekja mikilvæga hvata fyrir stofnanir heilbrigðiskerfisins til að fjárfesta í forvörnum og snemmtækri íhlutun í því skyni að draga úr þeim kostnaði sem fylgir því að meðhöndla ekki fíknsjúkdóma fyrr en þeir hafa þróast yfir á alvarlegustu stig.

Viðurkenning á fíknlækningum af hálfu ABMS er árangur af margra ára samhæfðu átaki af hálfu Stjórnarnefndar fíknlækninga í Bandaríkjunum (American Board of Addiction Medicine (ABAM)), Fíknlækningastofnunarinnar (Addiction Medicine Foundation) og Samtaka fíknlækna í Bandaríkjunum (American Society of Addiction Medicine (ASAM) með stuðningi frá NIDA (National Institute on Drug Abuse (NIDA) og fleiri stofnunum á vegum Bandaríkjastjórnar, svo sem Stofnunar um áfengismisnotkun og alkóhólisma (National Institute on Alcohol Abuse and Alcoholism) og Skrifstofu Hvíta hússins um stefnumótun á sviði vímuefnamála (White House Office of National Drug Control Policy).

Í yfirlýsingu í tilefni af þessum tímamótum sagði Robert J. Sokol, forseti ABAM, eftirfarandi um þá þýðingu sem þetta hefur: „Þessi tímamótaatburður, öllum öðrum fremur, felur í sér viðurkenningu á fíkn sem sjúkdómi sem hægt er að koma í veg fyrir og veita lækningu við, og stuðlar þannig að því að eyða fordómum og útskúfun sem lengi hefur fylgt fíknsjúkdómum. Hér er almenningi send sterk skilaboð um þann einarða ásetning lækna í Bandaríkjunum að bjóða fram sérhæfða þjónustu við þessum sjúkdómi og þjónustu sem ætlað er að vinna gegn þeirri áhættusömu vímuefnanotkun sem er undanfari sjúkdómsins.“

Sjá

http://saa.is/grein/thydingarmikid-framfaraskerf-fyrir-fiknlaekningar/