Fangelsismálayfirvöld í samvinnu við ríkisvaldið hafa nú ákveðið að loka opna fangelsinu á Bitru í Flóahreppi og flytja starfsemina yfir á Sogn í Ölfusi. Réttargeðdeildin sem þar hefur verið starfrækt flyst 1. Mars til Reykjavíkur. Reikna má með flutningum fanga frá Bitru þegar endurbótum og breytingum verður lokið, en þær standa nú yfir. Ekki er um að ræða nýja starfsemi heldur flutning á starfsemi sem fyrir er á Bitru, starfsmannafjöldi verður sá sami enda reiknað með sama eða svipuðum fjölda vistmanna. Fangelsi á Sogni ætti að vera ágætis viðbót við þau fangelsi sem fyrir eru þar til nýtt fangelsi rís. Það er ljóst að það mun taka nokkur ár að byggja nýtt fangelsi.