Nokkrir fangar á Litla-Hrauni skiluðu í dag inn undirskriftarlista til Margrétar Frímannsdóttur forstöðumanns fangelsisins þar sem þeir lýstu yfir óánægju með fæðið. „Við erum mjög ósáttir við matinn hérna, þetta litla sem við fáum fyrir 12 manns. Við búum við önnur kjör en aðrir hér á Litla-Hrauni," segir Guðmundur Freyr Magnússon, talsmaður fanganna.
 
„Við viljum fá matarpening eins og fangarnir í nýja húsinu til að kaupa okkur í matinn. Við erum hérna 12 fullorðnir menn sem erum alveg fullfærir um að sjá um okkur sjálfir og elda."." Guðmundur segir fanganna í álmunni fá of lítinn mat miðað við fjölda og hann sé næringarlítill. „Þetta er svo gegnumsoðið að það eru engin vítamín eftir í þessu fæði. Hér eru menn sem eru í fullri vinnu, úti frá kl. 9 á morgnanna til kl.17 á daginn og þurfa almennilega næringu." Fangarnir hótuðu hungurverkfalli yrði ekki farið að óskum þeirra.


 
Margrét Frímannsdóttir segist hafa fundað með föngunum þegar henni barst undirskriftarlistinn í dag og allir hafi skilið sáttir. „Þetta skiptist þannig að af þessum 77 plássum sem eru ætluð fyrir afplánun eru 55 sem sjá algjörlega um sig sjálfir, síðan eru 22 sem ekki gera það og fá matinn annars staðar frá," segir Margrét. „Inni í þessu húsi er miklu meiri hreyfing á mönnum, þeir dvelja þar styttri tíma og þar eru einnig þeir sem hafa orðið uppvísir að agabrotum í fangelsinu. Það hefur ekki verið ætlun okkar að láta þessar deildir elda, en það stendur hinsvegar til að laga umhverfið hjá þeim."
 
Margrét segir fangana 22 hafa einfalda eldunaraðstöðu þar sem þeir geti hitað sér tilbúna rétti, steikt sér egg og beikon o.fl. Hún bendir á að fangar fái nákvæmlega sama, aðsenda mat og starfsfólk, á því sé enginn munur og hafi einhverjar kvartanir komið upp hafi starfsfólk Rauða hússins, sem sendir matinn, ávallt verið mjög liðleg að funda með fangelsisyfirvöldum til að greiða úr því.
 
„Svo er það líka þannig að þar sem eru margir útlendingar á gangi þá kunna þeir oft ekki við íslenska matargerð. En við bjóðum ekki upp á sérfæði nema þegar það er eitthvað sem viðkomandi getur ekki borðað. En við áttum mjög góðan fund og honum lauk í sátt og samlyndi eins og öllum okkar fundum."