Anna Kristín Newton, sálfræðingur, segir að mál manns á Akureyri sem á að vista utan íbúabyggðar vegna barnahneigðar hans og hættunnar sem börnum stafar af honum, sé líklega einsdæmi.
Maðurinn glímir, auk barnahneigðar sinnar, við talsverða þroskaskerðingu auk annarra skerðinga. Maðurinn hefur sætt þungri lyfjameðferð sem var ætlað að bæði bæta ástand hans og draga úr kynhvöt, árásarhneigð og þráhyggju hans en að meðferðin hefur litlu skilað, auk þess sem sálfræðimeðferð hefur engu skilað.
„Hjá honum er það kannski ekki endilega barnahneigðin sem kemur í veg fyrir að meðferðin virki heldur þessi mikla þroskaskerðing sem gerir það að verkum að meðferð gagnast ekki,“ segir Anna Kristín.
Fjallað var um mál mannsins í síðasta mánuði á vef Fréttablaðsins en þar kom fram að héraðsdómur Norðurlands eystra herti nýverið öryggisgæslu hans þannig að hann verður fluttur fjarri íbúabyggð þar sem hann mun sæta gæslu allan sólarhringinn, verður alltaf að vera með gæslumanni utan dyra og auk þess sem það verður að tryggja að hann komist ekki í návígi við nein börn eða minni máttar.
Maðurinn er talinn mjög hættulegur börnum og kemur fram í skýrslu geðlæknis, sem reifuð er í dómi, að ef hann fái tækifæri til muni hann misnota börn og jafnvel drepa þau. Þar kemur enn fremur fram að maðurinn, sem er á þrítugsaldri, sé greindur með miðlungs þroskahömlun og að greindarvísitala hans mælist 42. Þroski hans er metinn á við sex til níu ára gamalt barn auk þess sem hann er með verulega skerðingu atferlis, ADHD, mótþróaþrjóskuröskun og málhelti.
Þá kemur fram að maðurinn eigi sér langa sögu um að áreita börn og misnota þau kynferðislega allt frá því að hann var aðeins 11 ára gamall. Geðlæknirinn segir manninn heltekinn af barnagirnd og að allt hans líf snúist um það.
Líkur á broti minnka um helming við meðferð
Anna Kristín segir að það sé vitað að af þeim sem að þiggja meðferð þá dragi það úr áhættu og líkum á frekari brotum.
„Líkur á því að einhver brjóti aftur af sér minnkar um allt að helming, ef þau fá viðeigandi meðferð,“ segir Anna Kristín og á þá helst við sálfræðimeðferð.
„En svo getur lyfjameðferð verið mikilvæg viðbót.“
Hún segir að ef fólk með barnahneigð sem ekki er með skerðingar sé líklegra til að vera móttækilegt fyrir meðferð og það geti búið sér til einhvers konar innsæi um sjúkdóm sinn.
„Þá er hægt að koma auga á hugsunarvillur sem þau hafa betri tök á að leiðrétta,“ segir Anna Kristín.
Ólíkir hópar
Anna Kristín segir að innan hópsins sem brjóti gegn börnum séu þó nokkrir ólíkir hópar.
„Það virðist vera að sumir séu hreinlega fæddir með kynferðislegar langar sem beinast fyrst og fremst að börnum, og hafa aldrei fundið fyrir kynferðislegum löngunum eða kenndum til fullorðinna. En svo er annað hópur sem brýtur af sér en hefur líka kenndir til fullorðinna en vegna aðstæðna, skorts á félagsfærni eða getu til að tengjast öðru fólki, þá leita þau á börn frekar en að stofna til fullorðins sambands,“ segir Anna Kristín.
Þriðji hópurinn er svo sá sem að skoðar mjög mikið af barnaníðsefni og segir hún að hegðun þessa hóps virki stundum eins og fíknihegðun og þeir séu sífellt að leita að einhverju nýju og einhverju grófu.
„Það er hegðun sem er að hluta til áráttukennd. En samkvæmt lögum er þetta allt fólk sem myndi falla undir það að hafa brotið á börnum, en mögulega af sitthvorri ástæðu,“ segir Anna Kristín og að meðferðin verði að taka mið af því.
Hún segir lítið vitað um nákvæman fjölda þeirra sem glíma við barnahneigð en rannsóknir áætla að það megi gera ráð fyrir að um það bil eitt prósent fullorðinna karlmanna sé með slíkar hneigðir samkvæmt greiningarkerfi DSM.
„En það er þannig að sumir sem eru með kenndir til barna eru líka með kenndir til fullorðinna. Það er ekkert endilega allir með 100 prósent barnahneigð og að vera með barnahneigð gerir fólk ekki sjálfkrafa hættulegt því er erfitt að setja alla undir sama hatt,“ segir Anna Kristín og að meðferð gagnist sumum betur en öðrum.
Anna Kristín tekur þó fram að þótt svo að mögulega sé um að ræða einstakt tilfelli hjá manninum fyrir norðan þá séu einstaklingar í hverju samfélagi sem séu hættulegir öðrum og mikilvægt er að reyna draga úr þeirri hættu með viðeigandi leiðum.