Ekki barna­hneigðin sem kemur í veg fyrir að með­ferð virki

Anna Kristín Newton, sálfræðingur, hefur um árabil veitt gerendum kynferðisbrota meðferð. 
Fréttablaðið/Valli

Anna Kristín Newton, sál­fræðingur, segir að mál manns á Akur­eyri sem á að vista utan í­búa­byggðar vegna barna­hneigðar hans og hættunnar sem börnum stafar af honum, sé lík­lega eins­dæmi.

Maðurinn glímir, auk barna­hneigðar sinnar, við tals­verða þroska­skerðingu auk annarra skerðinga. Maðurinn hefur sætt þungri lyfja­með­ferð sem var ætlað að bæði bæta á­stand hans og draga úr kyn­hvöt, á­rásar­hneigð og þrá­hyggju hans en að með­ferðin hefur litlu skilað, auk þess sem sál­fræði­með­ferð hefur engu skilað.

„Hjá honum er það kannski ekki endi­lega barna­hneigðin sem kemur í veg fyrir að með­ferðin virki heldur þessi mikla þroska­skerðing sem gerir það að verkum að með­ferð gagnast ekki,“ segir Anna Kristín.

Fjallað var um mál mannsins í síðasta mánuði á vef Fréttablaðsins en þar kom fram að héraðs­dómur Norður­lands eystra herti nýverið öryggis­gæslu hans þannig að hann verður fluttur fjarri í­búa­byggð þar sem hann mun sæta gæslu allan sólar­hringinn, verður alltaf að vera með gæslu­manni utan dyra og auk þess sem það verður að tryggja að hann komist ekki í ná­vígi við nein börn eða minni máttar.

Maðurinn er talinn mjög hættulegur börnum og kemur fram í skýrslu geðlæknis, sem reifuð er í dómi, að ef hann fái tækifæri til muni hann misnota börn og jafnvel drepa þau. Þar kemur enn fremur fram að maðurinn, sem er á þrítugsaldri, sé greindur með miðlungs þroska­hömlun og að greindar­vísi­tala hans mælist 42. Þroski hans er metinn á við sex til níu ára gamalt barn auk þess sem hann er með veru­lega skerðingu at­ferlis, ADHD, mót­þróa­þrjósku­röskun og mál­helti.

Þá kemur fram að maðurinn eigi sér langa sögu um að á­reita börn og mis­nota þau kyn­ferðis­lega allt frá því að hann var að­eins 11 ára gamall. Geð­læknirinn segir manninn hel­tekinn af barnagirnd og að allt hans líf snúist um það.

Líkur á broti minnka um helming við meðferð

Anna Kristín segir að það sé vitað að af þeim sem að þiggja með­ferð þá dragi það úr á­hættu og líkum á frekari brotum.

„Líkur á því að ein­hver brjóti aftur af sér minnkar um allt að helming, ef þau fá við­eig­andi með­ferð,“ segir Anna Kristín og á þá helst við sál­fræði­með­ferð.

„En svo getur lyfja­með­ferð verið mikil­væg við­bót.“

Hún segir að ef fólk með barna­hneigð sem ekki er með skerðingar sé lík­legra til að vera mót­tæki­legt fyrir með­ferð og það geti búið sér til ein­hvers konar inn­sæi um sjúk­dóm sinn.

„Þá er hægt að koma auga á hugsunar­villur sem þau hafa betri tök á að leið­rétta,“ segir Anna Kristín.

Ólíkir hópar

Anna Kristín segir að innan hópsins sem brjóti gegn börnum séu þó nokkrir ó­líkir hópar.

„Það virðist vera að sumir séu hrein­lega fæddir með kyn­ferðis­legar langar sem beinast fyrst og fremst að börnum, og hafa aldrei fundið fyrir kyn­ferðis­legum löngunum eða kenndum til full­orðinna. En svo er annað hópur sem brýtur af sér en hefur líka kenndir til full­orðinna en vegna að­stæðna, skorts á fé­lags­færni eða getu til að tengjast öðru fólki, þá leita þau á börn frekar en að stofna til full­orðins sam­bands,“ segir Anna Kristín.

Þriðji hópurinn er svo sá sem að skoðar mjög mikið af barna­níðs­efni og segir hún að hegðun þessa hóps virki stundum eins og fíkni­hegðun og þeir séu sí­fellt að leita að ein­hverju nýju og ein­hverju grófu.

„Það er hegðun sem er að hluta til á­ráttu­kennd. En sam­kvæmt lögum er þetta allt fólk sem myndi falla undir það að hafa brotið á börnum, en mögu­lega af sitt­hvorri á­stæðu,“ segir Anna Kristín og að með­ferðin verði að taka mið af því.

Hún segir lítið vitað um ná­kvæman fjölda þeirra sem glíma við barna­hneigð en rann­sóknir á­ætla að það megi gera ráð fyrir að um það bil eitt prósent full­orðinna karl­manna sé með slíkar hneigðir sam­kvæmt greiningar­kerfi DSM.

„En það er þannig að sumir sem eru með kenndir til barna eru líka með kenndir til full­orðinna. Það er ekkert endi­lega allir með 100 prósent barna­hneigð og að vera með barna­hneigð gerir fólk ekki sjálf­krafa hættu­legt því er erfitt að setja alla undir sama hatt,“ segir Anna Kristín og að með­ferð gagnist sumum betur en öðrum.

Anna Kristín tekur þó fram að þótt svo að mögu­lega sé um að ræða ein­stakt til­felli hjá manninum fyrir norðan þá séu ein­staklingar í hverju sam­fé­lagi sem séu hættu­legir öðrum og mikil­vægt er að reyna draga úr þeirri hættu með við­eig­andi leiðum.

Tags