Vernd fangahjálp hefur verið hluti af samstarfsráði sem vinnur að forvarnastarfi gegn áfengis- og vímuefnaneyslu sem er liður í að skapa börnum þroskavænleg skilyrði. Með því að styðja börn og ungmenni í að hafna neyslu áfengis og annarra vímuefna stuðla foreldrar að velferð þeirra og lífshamingju.

Í forvarnastarfi er lögð höfuðáhersla á að ná til barna og unglinga í ljósi þess að í æsku er lagður grunnur að framtíð hvers einstaklings. Þá mótast mikilvægar forsendur lífssýnar, þroska og heilbrigði síðar á ævinni. Ungt fólk er veikara fyrir gagnvart neyslu vímuefna en fullorðnir og rannsóknir sýna að því seinna sem ungt fólk byrjar neyslu áfengis og tóbaks því minni líkur eru á að það leiðist í neyslu vímuefna, hætti í skóla eða lendi í öðrum erfiðleikum. Þá verður að hafa í huga að börn og ungmenni eru berskjölduð fyrir áróðri og hvatningu til neyslu áfengis og annarra vímuefna.
Með fræðslu, upplýsingastarfi og hvatningu til foreldra um mikilvægi og markmið forvarnastarfs er leitast við að sporna gegn vímuefnaneyslu barna og ungmenna.