Aðalfundur Verndar

Aðalfundur Verndar verður haldinn í Borgartúni 6, fimmtudaginn 3. júní kl.18:00
( Gamla rúgbrauðsgerðin ) Í húsnæði  ( Vímulaus æska / Foreldrahús )
 
Dagskrá:

1. Skipan fundarstjóra, fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar Verndar
3. Ársreikningar félagsins
6. Lagabreytingar
7. Kosning stjórnarmanna.

 

Þráinn Farestveit

Fangelsi í góðæri og kreppu

Kannski  finnst mönnum alltaf jafn slæmt að þurfa að reisa fangelsi. Finnst fjármunum hins opinbera betur varið í annað á góðæristímum þegar rífandi gangur er í öllu. Þegar hjól atvinnulífsins ganga mjúklega og hratt og hver verkfús hönd  hefur meira en eitt verk að vinna. Hverjum skyldi þá detta í hug að fara byggja hús til að loka menn inni í? Og í kreppu þegar þung krumla atvinnuleysis og samdráttar leggst yfir menn og byggð, hverjum dettur í hug að reisa fangelsi?

Það hefur verið sagt að aðbúnaður fanga og fangelsa endurspegli menningarstig hverrar þjóðar.
Byggingasaga fangelsa á Íslandi hefur verið hálfgerð raunasaga. Hún geymir þó góðan vilja sem dugði reyndar skammt þegar á hólminn var komið vegna þess að höndin var hikandi og ákvörðunum iðulega skotið á frest. Það var alltaf eitthvað annað sem hafði forgang eða þá að óviðráðanlegar aðstæður skutu upp kolli og settu öll áform á hliðina.

Fréttatilkynning

26. júní - aþjóðadagur Sameinuðu þjóðanna gegn fíkniefnum
Verum vakandi - vakningaátak meðal foreldra um skaðsemi kannabis hefst á degi Sameinuðu þjóðanna gegn fíkniefnum – 26. júní 2010 en Sameinuðu þjóðirnar ákváðu í desember 1987 að tileinka 26. júní ár hvert alþjóðlegri baráttu gegn fíkniefnum (International Day against Drug Abuse and Illicit Trafficking) til þess að vekja athygli á fíkniefnavandanum og hvetja til samstarfs í fíkniefnamálum.  Í tilefni þessa dags í ár mun Samstarfsráð um forvarnir (SAMFO) í samstarfi við nítján félagasamtök hefja sameiginlegt vakningarátak á meðal foreldra um skaðsemi kannabisefna undir heitinu „Verum vakandi“.  Með átakinu vilja aðstandendur þess fræða foreldra og aðra uppalendur um kannabis, skaðsemi þeirra, einkenni kannabisneyslu og forvarnir. Með þessu vilja aðstandendur átaksins vekja athygli á og bregðast við ýmsum rangfærslum um kannabisefni sem m.a. er að finna á netinu og ungmenni eiga greiðan aðgang að
 
Kannabis og ungt fólk
Nú á sér stað umræða sem gerir lítið úr áhættunni sem fylgir neyslu kannabisefna og grefur undan varnaðarorðum gegn henni. Jafnvel er lagt til að heimila, notkun, sölu og dreifingu þessara efna (lögleyfa þau). Þetta er áhyggjuefni, m.a. í ljósi þess að neytendum kannabisefna sem leita sér meðferðar hefur fjölgað mikið síðustu ár á Íslandi. Þar á ungt fólk einkum í hlut. Skaðleg líffræðileg áhrif kannabisneyslu eru þekkt, svo og tengsl við neyslu annarra fíkniefna, s.s. amfetamíns. Á grundvelli þessarar vitneskju er mikilvægt að börn og unglingar láti ekki blekkjast af rangfærslum um kannabisefni, heldur afli sér hlutlægra upplýsinga. Til þess þurfa þau stuðning, upplýsingar og hvatningu af hálfu foreldra, kennara og annarra sem eiga að standa vörð um hag og velferð þeirra.

Tifandi tímasprengja í fangelsunum

Rekstur fangelsa er liður í grunnþjónustu samfélagsins sem nauðsynlegt er að sé til staðar en óhætt er að segja að fangelsin hafi lítinn skerf fengið af góðærinu, áætlanir um byggingu nýs fangelsis hafa frestast ár frá ári og bráðabirgðaúrræði tafist.
 
Hegningarhúsið hefur verið rekið á undanþágu frá heilbrigðisyfirvöldum frá árinu 1998
 
Öll fangelsi á Íslandi eru nú yfirfull og ástandið viðkvæmt. Á LitlaHrauni sitja nú rúmlega 90 fangar, þrátt fyrir að þar sé aðeins gert ráð fyrir 77 föngum og í fyrsta skipti í sögu fangelsisins er því tvímennt í suma klefana.
 
Á sama tíma þurfa aðrir dæmdir menn að bíða mánuðum saman eftir að afplána refsivistina, á einu ári hefur boðunarlistinn lengst úr 140 manns í tæplega 250.
Allsherjarnefnd Alþingis skoðaði aðbúnað á Litla-Hrauni og Hegningarhúsinu í gær.
 
Ástandið er nú í raun þannig að ekkert má út af bregða til að veruleg vandræði verði. Ef lögreglan handtæki á morgun hóp manna fyrir gróft ofbeldisbrot væri bókstaflega hvergi pláss til að halda þeim.

Ályktun Verndar og KRFí um aðstæður kvenfanga

Kvenréttindafélag Íslands og Vernd – fangahjálp, vilja í sameiningu vekja athygli á því að aðstæður kvenfanga eru mun lakari en karlfanga. Fyrir það fyrsta er einungis eitt fangelsi í boði fyrir kvenfanga, Kvennafangelsið í Kópavogi, þar sem þrengsli eru mikil. Kvenfangar eiga ekki kost á vistun í opnu fangelsi líkt og karlfangar og möguleikar kvenna til framhalds- og starfsnáms á meðan betrunarvist þeirra stendur, eru mun lakari en karlanna. Auk þess gefast kvenföngum ekki sömu tækifæri til að stunda vinnu samhliða afplánun og karlföngum.
 
Kvenréttindafélag Íslands og Vernd – fangahjálp, mótmæla þessari kynbundnu mismunun á aðstæðum og fangelsisvistun karl- og kvenfanga. Það er óviðunandi að föngum sé mismunað á grundvelli kyns síns enda varðar það við lög. Fangelsun er skv. stefnu stjórnvalda ætlað að fela í sér betrunarvist í þágu viðkomandi einstaklinga og samfélagsins í heild sinni. Kvenréttindafélag Ísland og Vernd – fangahjálp, hvetja yfirvöld til þess að lagfæra aðstæður kvenfanga hið fyrsta og tryggja það að nú þegar bygging nýs fangelsis á Hólmsheiði stendur fyrir dyrum, verði aðstæður kvenfanga sem þar munu dvelja til jafns við það sem karlföngum býðst.

Þráinn Farestveit