Skortur er á rými fyrir fanga í fangelsum landsins og telur Ríkisendurskoðun brýnt að úr þessu verði bætt og að stjórnvöld móti heildarstefnu um fullnustu refsinga. Þá þurfi að breyta skipulagi fangelsismála.
Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að einstaklingar sem biðu eftir því að hefja afplánun refsidóma voru þrefalt fleiri á síðasta ári en árið 2005 og meðalbiðtími eftir fangelsisvist tvöfaldaðist á tímabilinu. Dæmi séu um að skortur á rými í fangelsum landsins hafi valdið því að óskilorðsbundnir dómar hafi fyrnst. Segir Ríkisendurskoðun, að þetta geti dregið úr varnaðaráhrifum refsinga og grafið undan trausti almennings á réttarvörslukerfinu.