Brýnt að skoða geðheilbrigðisþjónustu á Litla-Hraun
Umboðsmaður Alþingis segir það eindregna afstöðu sína að brýnt tilefni sé til að endur-skoða fyrirkomulag geðheilbrigðisþjónustu á Litla-Hrauni. Hann segir að til greinakomi að beina tilmælum til stjórnvalda um að gera viðhlítandi ráðstafanir til að koma geðheilbrigðisþjónustu í fangelsinu að Litla-Hrauni í það horf að ekki leiki vafi á því að þeir fangar sem þess þurfa njóti umönnunar sem þeir eiga rétt á samkvæmt stjórnarskrá og lögum og við aðstæður sem samrýmast ástandi þeirra og þörfum.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í drögum að skýrslu um Litla-hraun sem umboðsmaður Alþingis hefur sent fangelsisyfirvöldum og velferðarráðuneytinu. Umboðsmaður heimsótti fangelsið 3. maí. Heimsóknin var þáttur í frumkvæðiseftirliti umboðsmanns og unnin af settum umboðsmanni, Róbert R. Spanó.
Heimsóknin í fangelsið Litla-Hrauni var liður í athugun á því hvort aðstæður í fangelsinu, aðbúnaður fanga og verklag við ákvarðanatöku um réttarstöðu þeirra samrýmist ákvæðum stjórnarskrárinnar, Mannréttindasáttmála Evrópu, gildandi laga og reglugerða um fullnustu refsinga auk meginreglna stjórnsýsluréttar. Þá laut athugun umboðsmanns að hvort þar væri gætt vandaðra stjórnsýsluhátta, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Í skýrsludrögum setts umboðsmanns eru dregin fram nokkur atriði sem hann telur að séu þess eðlis að til greina komi af hálfu umboðsmanns að beina síðar til stjórnvalda sérstökum tilmælum um úrbætur. Drög að skýrslunni eru því lögð fram til þess að stjórnvöldum gefist kostur á að bregðast við þessum atriðum áður en umboðsmaður tekur endanlega ákvörðun um hvort formlegum tilmælum verður beint til stjórnvalda. Umboðsmaður mun því að fengnum upplýsingum um viðbrögð stjórnvalda taka endanlega ákvörðun um hvort slík tilmæli verða sett fram. Fyrirkomulag þessarar athugunar umboðsmanns og birting á drögum að skýrslunni eru liður í því að taka upp nýtt verklag við frumkvæðis- og vettvangsathuganir umboðsmanns hjá stjórnvöldum.
Meðal þess sem settur umboðsmaður fjallar um í skýrsludrögunum eru heimsóknir til fanga, fjárhagsmálefni þeirra og heilbrigðisþjónusta í fangelsinu.
Þá telur settur umboðsmaður meðal annars að til greina komi að beina tilmælum til stjórnvalda um að gera viðhlítandi ráðstafanir til að koma geðheilbrigðisþjónustu í fangelsinu í það horf að ekki leiki vafi á því að þeir fangar sem þess þurfa njóti umönnunar sem þeir eiga rétt á samkvæmt stjórnarskrá og lögum og við aðstæður sem samrýmast ástandi þeirra og þörfum.
Innlent | mbl | 4.10.2013 |
Þráinn Farestveit

Fangar sem eru á skrá yfir liðsmenn skipulagðra glæpasamtaka fá hvorki reynslulausn né dagsleyfi og ekki heldur að afplána í samfélagsþjónustu eða opnum fangelsum, nema að uppfylltum skilyrðum. Fangelsismálayfirvöld settu sérstakar reglur þar að lútandi í vor.
„Það er rétt, við höfum sett reglur sem tengjast meðlimum slíkra samtaka," segir Páll Winkel fangelsismálastjóri. „Ástæðan er sú að það þarf að sýna sérstaka gát þegar á að flytja í opin fangelsi, senda út í dagsleyfi eða á reynslulausn og svo framvegis menn sem lýsa því yfir, með aðild sinni að svona félagsskap, að þeir beinlínis segi sig úr lögum við samfélagið."
Þetta hafi verið gert til að bregðast við vanda sem fylgdi fjöldun gengjameðlima í fangelsi. „Það eru tvö til þrjú ár frá því að fyrsti meðlimurinn kom þar til það varð algjör sprengja fyrir tæpu ári. Ástandið var orðið þannig að það var nauðsynlegt að taka á þessu."
Páll segir að fangelsin byggi skrár sínar á upplýsingum frá lögreglu. „En þessir menn eru nú sjaldnast að fela þetta – eru klæddir í þessa búninga, tattúveraðir og svo framvegis. Við ákváðum hins vegar strax og þetta vandamál varð til að banna allar merkingar skipulagðra glæpasamtaka innan fangelsanna," bætir hann við.
Aðspurður segir hann rétt að þetta hafi hingað til aðeins átt við félaga í svokölluðum vélhjólagengjum, einkum Hells Angels og Outlaws. „En við erum líka pottþétt með menn sem tilheyra mafíum frá Litháen og Póllandi. Við vitum bara ekki nógu mikið um það," segir hann.
Fangelsismálastjóri segist ekki viss um hversu margir fangar teljist núna í þessum hópi – það sé síbreytilegt og fyrir skömmu hafi þeir verið á annan tug.
Hann segist ekki heldur hafa tölu yfir það hversu oft hafi reynt á reglurnar. „Það hefur gerst alloft. Hins vegar má ekki gleyma því að ef menn lýsa því yfir, og það er trúverðugt, að þeir ætli að hætta í þessum samtökum eða láta af samskiptum við þau þá líta málin öðruvísi út."
Og reglurnar eiga ekki aðeins við um fangana sjálfa. „Það þarf nú varla að taka fram að meðlimir svona samtaka eru ekki velkomnir í heimsóknir í fangelsi," segir Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Hann ítrekar þó að meta þurfi hvert tilvik fyrir sig. „Okkur ber að halda uppi reglu og aga í fangelsunum og þetta er einfaldlega hluti af því.
Þráinn Bj. Farestveit, framkvæmdarstjóri fangahjálparinnar Verndar, hefur starfað lengi með föngum og að málefnum þeirra. Þráinn telur einsýnt að heildarstefnu og heildarsýn skorti í málefnum fanga og þar með sjúkra fíkla.