Ég er mjög ánægð með að orðið hafi verið við þeirri ósk minni að halda fund,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, en allsherjarnefnd kemur saman kl. 09 til þess að ræða stöðu fangelsismála.
Að sögn Vigdísar Hauksdóttur á nefndin von á tæpum tug gesta, en um sé að ræða þungavigtarfólk í fangelsismálabransanum. Þeirra á meðal eru Páll Winkel fangelsismálastjóri, Margrét Frímannsdóttir forstöðumaður fangelsisins Litla-Hrauns, tveir fulltrúar fangavarðafélagsins og tveir til þrír fulltrúar dómsmálaráðuneytisins.
Í samtali við mbl.is segist Vigdís hafa miklar áhyggjur af stöðunni í fangelsismálum þar sem biðlistar séu orðnir óheyrilega langir sem verði að taka á. Bendir hún á að biðtími eftir afplánun sé allt að fjögur til fimm ár. „Ég tel að það sé mannréttindabrot að fólk fái ekki að afplána sem fyrst eftir að dómur fellur."