Missti sjálfstraustið í neyslu

„Það er ekki hægt að flýja þessa stráka"

Kristjana Guðbrandsdóttir kom í heimsókn á Vernd í gær, ræddi þar við heimilismenn og starfsfólk. Hér er frétt um sama mál í DV.

Rætt við tvo fyrrverandi fanga sem hafa náð tökum á fíkn sinni

Ég óska engum að vera á þeim stað sem ég var," segir fyrrverandi fangi á Litla-Hrauni sem fékk góðan bata á meðferðargangi fangelsins. Jón Ingi Jónsson meðferðarfulltrúi á ganginum segir alla þá sem rata af leið eiga von. „Í neyslu slokknar á tilfinningum og það tekur stundum langan tíma fyrir strákana að finna aftur til. En þegar það gerist þá er von."
Blaðamaður DV ræddi við tvo fyrrverandi fanga sem hefur tekist að snúa við blaðinu.

Hér að neðan er gripið í umfjöllunina þar sem annar þeirra er spurður hvort honum hafi fundist erfitt að tala um tilfinningar sínar í meðferðinni. Áskrifendur DV.is geta smellt á meira.

„Já. Það var erfitt. Til að byrja með þá laug ég þegar ég vildi flýja sjálfa mig. Flóttaviðbragðið er sterkt. En það er ekki hægt að flýja þessa stráka. Við erum þarna allir fastir saman og þekkjum lygar hvers annars út í gegn. Auðvitað – því þær eru allar eins. Það verður því fljótt leiðinlegt. Um leið og maður fer að segja satt, þá fer að vakna eitthvað nýtt til lífsins. Satt best að segja þá er þetta nýja svo áhugavert að mann langar að halda áfram. Vonandi ekki fíkn," segir hann og hlær. „Enn önnur fíknin kannski bara." Hann segist nota hugtakið að vera á leiðinni heim. Ég lærði þetta á Vernd, áfangaheimili. Þar fékk ég mikla og góða hjálp. Kom mér í rútínu sem hafði góð áhrif á mig. Alla sem hafa brotið af sér, hvort sem það eru börn eða fullorðnir, langar bara aftur heim."

Fangar sem uppfylla ekki skilyrði


Fangar sem eru á skrá yfir liðsmenn skipulagðra glæpasamtaka fá hvorki reynslulausn né dagsleyfi og ekki heldur að afplána í samfélagsþjónustu eða opnum fangelsum, nema að uppfylltum skilyrðum. Fangelsismálayfirvöld settu sérstakar reglur þar að lútandi í vor.

„Það er rétt, við höfum sett reglur sem tengjast meðlimum slíkra samtaka," segir Páll Winkel fangelsismálastjóri. „Ástæðan er sú að það þarf að sýna sérstaka gát þegar á að flytja í opin fangelsi, senda út í dagsleyfi eða á reynslulausn og svo framvegis menn sem lýsa því yfir, með aðild sinni að svona félagsskap, að þeir beinlínis segi sig úr lögum við samfélagið."

Þetta hafi verið gert til að bregðast við vanda sem fylgdi fjöldun gengjameðlima í fangelsi. „Það eru tvö til þrjú ár frá því að fyrsti meðlimurinn kom þar til það varð algjör sprengja fyrir tæpu ári. Ástandið var orðið þannig að það var nauðsynlegt að taka á þessu."

Páll segir að fangelsin byggi skrár sínar á upplýsingum frá lögreglu. „En þessir menn eru nú sjaldnast að fela þetta – eru klæddir í þessa búninga, tattúveraðir og svo framvegis. Við ákváðum hins vegar strax og þetta vandamál varð til að banna allar merkingar skipulagðra glæpasamtaka innan fangelsanna," bætir hann við.

Aðspurður segir hann rétt að þetta hafi hingað til aðeins átt við félaga í svokölluðum vélhjólagengjum, einkum Hells Angels og Outlaws. „En við erum líka pottþétt með menn sem tilheyra mafíum frá Litháen og Póllandi. Við vitum bara ekki nógu mikið um það," segir hann.

Fangelsismálastjóri segist ekki viss um hversu margir fangar teljist núna í þessum hópi – það sé síbreytilegt og fyrir skömmu hafi þeir verið á annan tug.

Hann segist ekki heldur hafa tölu yfir það hversu oft hafi reynt á reglurnar. „Það hefur gerst alloft. Hins vegar má ekki gleyma því að ef menn lýsa því yfir, og það er trúverðugt, að þeir ætli að hætta í þessum samtökum eða láta af samskiptum við þau þá líta málin öðruvísi út."

Og reglurnar eiga ekki aðeins við um fangana sjálfa. „Það þarf nú varla að taka fram að meðlimir svona samtaka eru ekki velkomnir í heimsóknir í fangelsi," segir Páll Winkel fangelsismálastjóri.

Hann ítrekar þó að meta þurfi hvert tilvik fyrir sig. „Okkur ber að halda uppi reglu og aga í fangelsunum og þetta er einfaldlega hluti af því.

Stór hluti fanga eru fíklar

Þráinn Bj. Farestveit, framkvæmdarstjóri fangahjálparinnar Verndar, hefur starfað lengi með föngum og að málefnum þeirra. Þráinn telur einsýnt að heildarstefnu og heildarsýn skorti í málefnum fanga og þar með sjúkra fíkla.

„Opinberar tölur um hlutfall þeirra fanga sem haldnir er vímuefnafíkn eru í rauninni miklu lægri. En ég myndi telja að 80 til 90 prósent fanga séu haldnir vímuefnafíkn," segir Þráinn Bj. Farestveit „Stærsti hluti þeirra brota sem einstaklingar eru dæmdir fyrir til óskilorðsbundinna dóma tengjast með einum eða öðrum hætti notkun vímugjafa."

„Það þarf að stoppa þennan fíkniferil ef á að vera möguleiki á að hafa áhrif á brotaferil stórs hluta þessa fólks. Ef það er ekki gert eru líkurnar á áframhaldandi brotastarfsemi þess miklu meiri."

Þráinn nefnir einnig þann möguleika sem lengi hefur verið til staðar sem er sá að menn fari, í lok afplánunar, í meðferð á Vog og jafnvel í framhaldsmeðferð á Staðarfell.

Þráinn segir að samhliða því sem fangar eigi við áfengis- og vímuefnasýki að stríða séu önnur vandamál sem þjaka skjólstæðinga þeirra hjá Vernd og þá býsna fjölbreytt. Má þar helst nefna geðræn vandamál af ýmsum toga; hegðunarvanda, ADHD, athyglisbrest, lesblindu og/eða ofvirkni.

Hópur fanga á við eitthvað af ofangreindu að stríða, er greindur sem slíkur en stór hluti þeirra hefur aldrei fengið greiningu á þessum vanda.

Þráinn segir úrræði fyrir fanga í raun af skornum skammti, þeir njóta ekki sömu almennu þjónustu og aðrir borgarar, þeir hafa ekki eins greiðan aðgang að félagsþjónustu og geðheilbrigðsþjónustu, svo dæmi séu nefnd á meðan á afplánun stendur.

Áframhaldandi vímuefnanotkun standi í vegi fyrir bata og breytingu á lífi þessara einstaklinga. En þar geti ýmislegt annað spilað inn í svo sem aðrir sjúkdómar. Erfitt sé að meta þetta.

„Það er vitað mál að vímuefnanotkun er mjög víðtæk meðal fanga. Stór hluti fanga hefur verið í farvegi neyslu um áratuga langt skeið og margir fanganna enda neyslumynstur sitt í geðsjúkdómum og ótímabærum dauðsföllum – sem er mjög hátt á meðal þeirra sem hlotið hafa óskilorðsbundna dóma."

„Fangar eiga sér fáa málsvara og þegar fordómar í garð minnihlutahópa eru ræddir standa fáir upp föngum til varnar – fordómar eru ríkir í þeirra garð. Þessu verður að breyta og samfélagið verður að sjá hag í lægri endurkomutíðni og að þyngri krafa eigi að vera á gæði afplánunar. Ég kalla eftir heildstæðri stefnu í þessum málaflokki, bæði aðgerðum er snúa að föngunum sjálfum sem og fjölskyldum þeirra."

Félagasamtökin Vernd, fangahjálp voru stofnuð 1. febrúar 1960 og hafa alla tíð rekið áfangaheimili í Reykjavík. Dvalartími fer eftir lengd dóma og er lengstur 12 mánuðir. Skilyrði vistarinnar eru ströng, að sögn Þráins, og þarf viðkomandi að hafa atvinnu, vera við nám eða í meðferð. Brottfall úr úrræðum Verndar er lágt eða um 10 prósent en helsta ástæða þess að menn lenda í klandri er einmitt vímuefnanotkun sem er brot á reglum Verndar.

Um starfsemi Verndar fara um 50 til 60 einstaklingar árlega. Ráðgjafi frá SÁÁ starfar á áfangaheimilinu. Frá árinu 1994 hafa farið rétt tæplega þúsund manns fengið þann möguleika að ljúka afplánun hjá Vernd: „Miklu minni líkur eru á því að þeir sem fara hér um hjá okkur komi til baka í fangelsin, endurkomutíðnin lækkar sé þessu úrræði beitt ," segir Þráinn.

 

 

Þráinn Farestveit

Aðalfundur Verndar

Aðalfundur Verndar verður haldinn í Borgartúni 6, fimmtudaginn 6. júní kl.18:00
( Gamla rúgbrauðsgerðin ) Í húsnæði ( Vímulaus æska / Foreldrahús )

Dagskrá:

1. Skipan fundarstjóra, fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar Verndar
3. Ársreikningar félagsins
6. Lagabreytingar
7. Kosning stjórnarmanna.

Þráinn Farestveit

Viðtöl við starfsfólk og fanga

„Við erum að vinna við að greina þessar upplýsingar og við munum á næstu vikum taka ákvarðanir um hvort að við þurfum að fá frekari upplýsingar um þessi atriði sem ég er að skoða," segir Róbert Spanó, settur umboðsmaður Alþingis, um heimsókn sína á Litla-Hraun.Róbert fundaði með starfsfólki fangelsisins, heilbrigðisstarfsfólki sem sinnir heilbrigðisþjónustu í fangelsinu, fulltrúum frá Fangelsismálastofnun og innanríkisráðuneytinu og Afstöðu, félagi fanga.Tilgangur heimsóknarinnar er að leggja mat á hvort aðstæður í fangelsinu, aðbúnaður fanga og verklag við ákvörðunartöku um réttarstöðu þeirra samrýmist ákvæðum stjórnarskrárinnar, Mannréttindasáttmála Evrópu, laga og reglugerða um fullnustu refsinga auk meginreglna stjórnsýsluréttar. Hann hafði til hliðsjónar skýrslu CPT-nefndarinnar (Evrópunefndar um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu) sem gerð verður opinber á næstu vikum.Róbert hitti einnig að máli fanga sem óskuðu eftir samtali. Hann segist vera að íhuga hvort tilefni sé til að eiga frekari fundi. „Þá með fulltrúum fangelsisyfirvalda og þá hugsanlega innanríkisráðuneytisins og velferðarráðuneytisins og þá sérstaklega hvað varðar heilbrigðismálefni fanga."

 

Þráinn Farestveit