Fangelsið Litla-Hrauni var stofnað 8. mars 1929 og er gæsluvarðhalds- og afplánunarfangelsi. Starfsemi fangelsisins fer fram í 9 byggingum, sem einfaldlega nefnast Hús 1, Hús 2 o. s.frv
Hús 1 var tekið í notkun 1980 sem einangrunardeild og frá 1996 er það einnig notað fyrir gæsluvarðhald. Hús 2, sem er fyrsta byggingin á staðnum var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins í hinum íslenska burstabæjarstíl og átti upphaflega að vera sjúkrahús en það koma ekki til þess. Í Húsi 2 er aðstaða lækna og hjúkrunarfræðinga og þar er jafnframt heimsóknardeild með 12 herbergjum. Hús 3 var tekið í notkun árið 1972 með 22 klefum og endurnýjað á árinu 1999. Hús 4 var tekið í notkun árið 1995. Þar eru 5 álmur með 11 klefum hver. Í öðrum byggingum eru skrifstofur, verkstæði og önnur starfsemi. Til afþreyingar er í fangelsinu líkamsræktaraðstaða, bókasafn, fönduraðstaða og billiardborð. Á lóð eru fótboltavöllur, göngubraut og körfuboltaaðstaða.
Vinna fanga: Helstu verkefni eru vörubrettasmíði, hellusteypa, þrif, þvottahús, skrúfbútaframleiðsla, skjalaöskjuframleiðsla, bílnúmera- og skiltagerð, samsetning í járn- og trésmíði og bón og þvottur bíla. Nánari upplýsingar og myndir af framleiðsluvörum.
Nám: Fjölbrautaskóli Suðurlands hefur umsjón með skólahaldi fanga í fangelsinu, námsframboð er sambærilegt við það sem tíðkast í fjölbrautaskólum.