Bólusetning hafin

Bólusetningar ganga vel í fangelsum landsins. Starfsmenn fangelsa hafa allir fengið a.m.k. fyrri bólusetningu og framundan eru bólusetningar fanga. Fangar á Litla-Hrauni og Sogni fá bólusetningu á morgun en áætlað er að fangar í móttökufangelsinu á Hólmsheiði fái bólusetningu síðari hluta næstu viku. Þetta er ákaflega ánægjulegt en engin smit hafa komið upp meðal starfsmanna eða vistmanna í faraldrinum hingað til en einn fangi var færður smitaður í gæsluvarðhald. Hlaut hann viðeigandi heilbrigðisþjónustu og breiddist smit ekki út meðal annarra í fangelsinu. Ástæða er til þess að þakka öllum fyrir samhent átak í sóttvörnum. Fangaverðir, heilbrigðisstarfsmenn, aðrir starfsmenn, fangar og Afstaða, félag fanga, hafa allir sem einn staðið vaktina vel í þessum faraldri.

 

Henríetta Ósk Gunnars­dóttir

Henríetta Ósk Gunnars­dóttir, sál­fræðingur hjá Fangelsis­mála­stofnun, segir sár­lega vanta fleiri úr­ræði fyrir fanga sem hafa setið inni fyrir kyn­ferðis­brot gegn börnum. „Þetta er eini hópurinn sem fær ekki að fara inn á á­fanga­heimili,“ segir Henríetta í hlað­­varpinu Frelsið er yndis­­legt með Guð­­mundi Inga Þór­odds­­syni, for­­maður Af­­stöðu.

Á­fanga­heimilið Vernd tekur ekki á móti föngum sem hafa brotið gegn börnum og hingað til hafa með­ferðar­stofnanir heldur ekki viljað taka á móti föngum í þessum brota­flokki. Henríetta bendir einnig á að engin eftir­fylgni sé eftir að ein­staklingarnir hafi lokið fangelsis­vist.

Frelsið er yndislegt - Henríetta Ósk Gunnarsdóttir - YouTube

„Við fylgjum þeim eftir á reynslu­lausnar tíma og svo líkur þeirra tíma hjá okkur og þá eru þeir úr okkar höndum. Það vantar eitt­hvað sem tekur við þegar fólk hefur lokið af­plánun.“ Þá sé erfiðara fyrir þennan hóp að fóta sig í sam­fé­laginu og finna vinnu og heimili að lokinni af­plánun.

Sér­gangur fyrir barna­níðinga

„Fangar sem sitja inni fyrir brot gegn börnum eru mjög jaðar­settur hópur,“ segir Henríetta. Þeir eru til að mynda vistaðir á sér­gangi á Litla Hrauni og um­gangast aðra fanga lítið.

„Þessi hópur virðist vera neðst í virðingar­stiganum þannig hann ein­angrast svo­lítið,“ út­skýrir Henríetta. Þá sé hópurinn oft út­settur fyrir á­reiti og á­rásum af hálfu annarra fanga sé þess vegna haldið að hluta til frá öðrum vist­mönnum Litla Hrauns.

Verri með­ferð

Guð­mundur telur að fangar í þessum brota­flokk fái verri með­ferð en aðrir fangar með því að vera að­skildir. Hann telur þennan hóp ekki hafa lent í fleiri á­rásum en aðra innan fangelsis­veggjanna. Henríetta segir það geta staðist en bendir á að að­skilnaðurinn hafi verið settur á með öryggi brota­mannanna í huga.

„Þeirra vegna er það já­kvætt upp á það að gera. Við sjáum það er­lendis að þar eru sér­úr­ræði fyrir þennan hóp.“ Á­hyggjur hafi einnig komið upp um að það gæti verið skað­legt að hafa menn með sömu kenndir í sama hóp. Henríetta segir þó ekkert benda til þess.

Guð­mundur veltir fyrir sér hvort það sé ekki hætta á að þessir menn myndi tengsl og hittist með slæman á­setning þegar komið er úr fangelsinu. „Það á við um alla sem eru í fangelsi. Kannski eignast þú fé­laga sem að þú heldur sam­skiptum við á­fram þar sem það eru skert tæki­færi til sam­skipta,“ mót­mælir Henríetta.

Mann­eskjur eins og aðrir

Henríetta hefur sinnt þeim föngum sem þjást af barnagirnd um ára­bil. Um það bil þrjú til fimm prósent mann­kynnisins glímir við barnagirnd að sögn Henríettu. Það er að hennar mati ekki hægt að skil­greina sem sjúk­dóm þar sem hægt er að vinna með fólki sem glímir við þessi ein­kenni.

Í með­ferðum sé mikil­vægt að mæta ein­stak­lingunum af virðingu að mati Henríettu. „Það getur verið erfitt að heyra en þetta eru mann­eskjur eins og aðrir.“ Þessu fylgi gríðar­leg skömm og því geti verið erfitt að opna sig um slíkar kenndir.

„Við viljum meina að fangelsis­vist hafi ein­hvern fælingar­mátt og við viljum ætla að þetta sé betrun og tæki­færi til að vinna með ein­stak­lingnum og grípa hann.“ Barnagirnd sé mikið tabú og því leiti fólk sér ekki að­stoðar fyrr en það er orðið of seint. „Með því að vinna með þeim í fangelsinu er hægt að reyna að koma í veg fyrir að það verði fleiri brota­þolar.“

Barnagirnd faldari hjá konum

Horft er til þriggja við­miða þegar ein­stak­lingur er greindur með barnagirnd. Hvort ein­stak­lingurinn upp­lifi kyn­ferðis­lega hugar­óra eða hvatir til barna, hvort hann hafi fram­fylgt þeim órum og hvort hann hafi átt við mikla streitu eða á­reiti í tengslum við þessa hugar­óra sem hafi aftrað eðli­legu fé­lags­lífi. „Svo er enginn yngri en 16 ára sem myndi fá þessa greiningu og brota­þolinn þyrfti að vera minnst fimm árum yngri.“

Mun al­gengara er að karlar sitji inni fyrir kyn­ferðis­brot gegn börnum en konur. Henríetta bendir á að telja mætti þær konur sem hafa setið inni á Ís­landi fyrir slík brot á annarri hendi.

Hún telur að á­stæða þess sé að hluta til fólgin í því að barnagirnd sé meira falin hjá konum. Það geti þó breyst á komandi árum þá gæti kven­kyns föngum í þessum mála­flokk því fjölgað.

Umboðsmaður

Um­boðs­maður Al­þingis hefur beint því til Fangelsis­mála­stofnunar að taka til skoðunar hvort nægi­legt til­lit sé tekið til að­stæðna og öryggis kvenna í fangelsinu á Sogni í Ölfusi með því að vista þar bæði konur og karla. Fangelsið er eina opna fangelsið á landinu sem vistar kvenkyns fanga en flestir fangarnir eru þó karlkyns.

Þetta kemur fram í skýrslu um­boðs­manns Al­þingis eftir heim­sókn hans í fangelsið en honum hefur verið falið að annast eftir­lit með stöðum þar sem frelsis­sviptir dvelja á Ís­landi. Hann hefur nú heim­sótt fangelsi landsins og birti í dag skýrsluna um Sogn en skýrslur um önnur fangelsi eru væntan­legar á næstunni.

Konur í viðkvæmri stöðu í blönduðum fangelsum

Í skýrslunni segir að í opnum fangelsum þar sem fangar af báðum kynjum eru vistaðir og að­stæður bjóða ekki upp á full­kominn að­skilnað milli kynjanna er talið lík­legra en ella að kyn­ferðis­leg á­reitni og kyn­ferðis­legt of­beldi eigi sér stað. Þar séu konur í sér­stak­lega við­kvæmri stöðu, einkum ef hlut­fall þeirra er mun lægra en hlut­fall karl­kyns fanga en sú er raunin al­mennt á Sogni.

Þegar um­boðs­maður fór í heim­sóknina voru tvær konur vistaðar í fangelsinu og voru þær báðar vistaðar á öðrum ganginum í aðal­byggingunni. Þar var þá einnig einn karlmaður. Umboðsmanni var þá tjáð að sú hug­mynd hefði komið upp að vista einungis konur á ganginum, því þá hefðu þær að­gengi að sér­stöku bað­her­bergi og al­mennt yrði ekki um­gangur inn á ganginn af karl­kyns föngum.

Fangelsið Sogni er eina opna fangelsið á landinu þar sem kvenkyns fangar eru vistaðir. Að fangelsi sé opið þýðir að þar eru engar girðingar eða múrar sem afmarka það.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá fangelsinu 29. septem­ber síðast­liðinn, eftir heim­sóknina, hafði þessari hug­mynd síðan verið hrint í fram­kvæmd. Gangurinn er nú einungis ætlaður konum og þó sú staða komi upp í fangelsinu að engin kona af­pláni þar verða her­bergi gangsins ekki nýtt fyrir karl­kyns fanga.

Um­boðs­maður Al­þingis segir í sam­tali við Frétta­blaðið að á­stæða hafi þótt til að beina því til Fangelsis­mála­stofnunar að taka þessi mál til frekari skoðunar. „Þessar að­stæður geta jafn­vel valdið því að konur sem upp­fylla skil­yrði til af­plánunar í opnu fangelsi sæki síður um flutning þangað,“ segir Kjartan Bjarni Björg­vins­son.

Í skýrslunni er bent á að í fjöl­þjóð­legum reglum sé lögð rík á­hersla á fullan að­skilnað kynjanna í fangelsum. Ríkjum sé einnig skylt að veita frelsis­sviptum ein­stak­lingum vernd gagn­vart öðrum ein­stak­lingum sem kunna að skaða þá.

Líkamsrannsóknir verði að rökstyðja

Þá telur um­boðs­maður að endur­skoða þurfi verk­lag í tengslum við svo­kallaðar líkams­rann­sóknir á föngum. Líkams­rann­sókn er það kallað þegar leitað er að munum eða efnum sem ein­hver kann að hafa falið í líkama sínum. Fangelsi hafa heimild til að fremja líkams­rann­sókn og taka öndunar-, blóð- eða þvag­sýni og annars konar líf­sýni úr föngum við komu þeirra í fangelsi og við al­mennt eftir­lit ef grunur leikur á að við­komandi hafi falið efni í líkama sínum eða neytt á­fengis- eða fíkni­efna. Líkams­rann­sóknir eru til dæmis oft fram­kvæmdar þegar fangar koma til baka í fangelsið úr leyfi.

Í skýrslunni segir að Fangelsið Sogni verði að endur­skoða verk­lag sitt í tengslum við á­kvarðanir um líkams­rann­sókn á fögnum og gera við­eig­andi breytingar til að gæta þess að ein­stak­lings­bundið og heild­stætt mat fari fram hverju sinni um hvort nauð­syn­legt sé að beita henni.

„Við erum að benda á það að þegar þetta er gert verður að meta það sér­stak­lega í hvert skipti,“ segir Kjartan Bjarni. „Við erum auð­vitað í þessu for­varnar­starfi og þess vegna brýnum við fyrir fangelsis­yfir­völdum þessar kröfur, sem við teljum leiða af lögunum.“

Samhjálp heimsækir Vernd

Á mynd. Þráinn Farestveit, Valdimar Þór Svavarsson, Rósa Gunnlaugsdóttir – Gjaldkeri, Anna María McCrann - Verkefnastjóri fjáröflunar, Rósý Sigþórsdóttir - Verkefnastjóri Kaffistofu, Helga Lind Pálsdóttir - Forstöðumaður Hlaðgerðarkots

 

Starfsfólk Samhjálpar heimsótti Vernd í dag. Þráinn Bj. Farestveit framkvæmdastjóri tók á móti gestum og fór yfir hlutverk og tilgang Verndar og mikilvægi samtakanna. Samstarf Verndar og Samhjálpar hefur verið einstakt og farsælt í áratugi. Starfsendurhæfing er lykill að farsælli endurkomu skjólstæðinga Verndar.

 

Samhjálp hefur verið stór þáttur í þessari aðlögun og aðstoð við skjólstæðinga Verndar í formi starfsendurhæfingar sem hefur reynst einstaklega vel en þar leikur kaffistofa Samhjálpar lykil hlutverki. Kaffistofa Samhjálpar sem er í Borgartúni 1a hefur tekið á móti skjólstæðingum Verndar með opnum örmum til starfsendurhæfingar en þar starfa skjólstæðingar Verndar frá 09.00 til 14.00 alla virka daga. Þar er boðið upp á morgunkaffi, meðlæti og heita máltíð í hádeginu. Þangað leita einstaklingar sem eru vegalausir, fátækt fólk, ýmist vegna andlegra eða líkamlegra veikinda eða félagslegrar einangrunar. Flestir sem þangað koma búa við mjög erfiðar félagslegar aðstæður.

 

Þá er mjög gott samstarf á milli Hlaðgerðakots og Verndar sem rekið er af Samhjálp. Oft fara einstaklingar í meðferð áður en þeir koma á Vernd en einnig hafa einstaklingar farið í meðferð á meðan á dvöl stendur á Vernd. Hlaðgerðarkot sem er í Mosfellsdal er elsta starfandi meðferðarstofnun landsins. Í Hlaðgerðarkoti er unnið með einstaklinga sem eiga við fíknivanda að stríða. Í Hlaðgerðarkoti starfar þverfaglegt teymi, lækna, hjúkrunarfræðinga, félagsráðgjafa og áfengis- og fíkniráðgjafa. Tilgangur heimsóknarinnar var upplýsa og miðla fræðslu um úrræði Verndar einnig að bæta og gera frekara samstarf mögulegt.

Starfsemi Verndar

Sú þjónusta sem Vernd veitir er nauðsynleg og er mjög sérhæfð, þjónustan sem Vernd veitir er ekki veitt annars staðar. Gott samstarf er við aðrar stofnanir í velferðarþjónustu eins og Landspítala, heilsugæslu, barnaverndarnefndir, Barnaverndarstofu, SÁÁ, Tryggingastofnun, vinnumálastofnun, Hlaðgerðarkot, Geðheilsuteymi fangelsanna og fangelsismálastofnun. Þá eru samskipti Verndar við sveitafélög, nefndir og velferðarsvið þeirra í flestum tilfellum mjög góð en sveitafélögin eru nú 69.

Verndar hef nú starfað að málefnum dómþola í 60 ár og hefur Vernd það í stefnu sinni að bæta félagslega hæfni þeirra og bæta viðhorf almennings og yfirvalda til þeirra sem dæmdir eru. Ætla má að fjöldi þeirra sem búið hafi á Vernd séu hátt í fimm þúsund á þessum tíma.

Vernd hefur á skipa meðferðar og endurhæfingastefnu þar sem dómþolum stendur til boða að taka út hluta óskilorðsbundinna dóma í fullnustu utan fangelsa í allt að 16 mánuði. Vernd hefur verið brautryðjandi hvað þetta varðar og hefur samstarf Verndar og fangelsismálastofnunnar verið farsælt. Vernd er alltaf að leita nýrra leiða til að styrkja félagslega og samfélagslega hæfni þeirra sem þar dvelja á hverjum tíma.

Vernd hefur staðið vörð um velferð fólks í þessari stöðu í rúm 60 ár og reynt að milda viðhorf almennings til málaflokksins. Vernd hefur staðið vörð um nauðsyn þess að dómþolar sem ekki sitja í fangelsum fái eðlilegan og óhindraðan aðgang að réttindum svo sem heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu sveitafélaganna, Tryggingastofnunnar og lögfræðiaðstoð. Vernd hefur stutt við bakið þessum hóp, sem stendur mjög höllum fæti og er á viðkvæmum stað í lífi sínu þegar hann sækist eftir þjónustu Verndar. Vernd telur að þjónustuna þurfi að verja þar sem það liggur fyrir að mikil þörf verður fyrir þessa þjónustu í kjölfar ríkjandi heimsfaraldurs.

  • Stuðningur við aðstandendur áður en til fullnustu kemur.

Skrifstofa Verndar tekur á móti fjölda símtala á viku þar sem makar, börn og fjölskyldur þeirra leita upplýsinga um væntanlega afplánun skyldmenna og ræða áhyggjur sýnar. Ræða þar um ýmis mál tengdum dómþola og leita leiða til að hjálp þeim dæmda þegar og ef að afplánun kemur. Áhyggjur er margskonar, kostnaður og fordæming samfélagsins. Spurningar um þau áhrif sem dómur mun hafa á börn þeirra og með hvaða hætti er hægt að milda slík áhrif. Vernd reynir eftir bestu getu að leiðbeina þeim sem til Verndar leita eins og kostur er. Oft tengist þó samtalið því að fjölskyldur vita af starfsemi Verndar og því góða orðspori sem af starfseminni fer og vilja vita hversu langur tími líður frá því að afplánun hefst þangað til viðkomandi kemst á Vernd. Einnig er leitað eftir upplýsingum er varða stuðning fyrir fjölskyldurnar og í hvaða formi þær gætu verið. Vernd býr yfir yfirgripsmikilli reynslu á þessu sviði og getur í flestum tilfellum leiðbeint einstaklingum í réttan farveg. Stundum eru samtölin aðeins spjall og leit eftir stuðningi, áhyggjur af börnum sínum og veitir Vernd öllum sem til þeirra leita eins góðan stuðning og mögulegt er. Stuðningur við þennan hóp er ekki síður mikilvægur og sá stuðningur sem Vernd veitir dómþolum í þessu ferli.

  • Félagslegur stuðningur við dómþola fyrir afplánun

Dómþolar leita mikið til Verndar áður en til afplánunnar kemur. Ætla má að 30 símtöl á mánuði berist Vernd þar sem dómþolar leita ráða vegna dóma sem þeir hafa hlotið og hvaða leiðir séu færar. Dómþolar leita oft eftir svörum sambærilegum þeim sem aðstandendur leita eftir sem snúa að réttindum þeirra og mögulegum leiðum til að milda áhrif refsinga. Það er þó áberandi hversu þungt dómar leggast á þessa einstaklinga og eru mjög margir þeirra með miklar áhyggjur af fjölskyldu og þá sérstaklega ef börn eru annars vegar. Fullnusta dóma í fangelsi hefur gríðaleg áhrif á andlega hlið þeirra og sýna tölur sem Vernd hefur að hátt í 22 % þeirra sem eru á leið í fangelsi íhuga sjálfsvíg í tengslum við upphaf fangelsisvistunnar.

Vernd er þó í þeirri stöðu að geta veitt þeim smá ljós við endann á þessum átakanlega ferli að upplýsa þá um þá samfellu sem fer í gang við inntöku í fangelsi þar sem háttsemi á afplánunartíma getur haft jákvæð áhrif á fullnustu þar sem góð hegðun hefur áhrif færslur frá lokuðu fangelsi yfir opið fangelsi, Vernd og rafrænt eftirlit fari menn eftir reglum. Félagslegleg og fjölskyldu staða getur verið æði misjöfn og getur stundum verið mjög flókið að aðstoða einstaklinga og finna leiðir sem eru færar til þess að menn geti skilið við fjölskyldur og vini í langa tíma. Rúmlega helmingur þeirra sem dvelja á Vernd eru foreldrar 54,5%.