Fá allir að vera með?

HH

Þegar einstaklingar ljúka afplánun í fangelsi standa þeir oft frammi fyrir miklum áskorunum við að snúa aftur til samfélagsins. Ein stærsta hindrunin er að finna vinnu. Fordómar og vantraust í samfélaginu gera það að verkum að margir atvinnurekendur veigra sér við að ráða fólk sem hefur afplánað dóm, jafnvel þótt viðkomandi hafi tekið sig á og vilji byggja upp nýtt líf. Þetta veldur vítahring þar sem einstaklingar sem vilja breyta til fá ekki tækifæri, sem eykur hættuna á að þeir lendi aftur í afbrotum. Hér þarf breyting að eiga sér stað, og fyrirtæki og stofnanir þurfa að axla meiri samfélagslega ábyrgð. Ef við skoðum myndina hér að neðan má sjá hlutfall þeirra einstaklinga sem lenda aftur í fangelsi, eru dæmdir að nýju eða koma aftur við sögu lögreglu. Það sést greinilega að stór hluti snýr aftur inn í réttarkerfið. Hins vegar lækkar þetta hlutfall verulega ef viðkomandi afplánar refsingu með samfélagsþjónustu. Hvað segir þetta okkur?

Það bendir til þess að samfélagsþjónusta gefi einstaklingnum tilgang – eitthvað jákvætt til að stefna að. Á Norðurlöndunum hafa ýmsar lausnir verið innleiddar til að auðvelda endurkomu einstaklinga í samfélagið eftir afplánun. Dæmi verða tekin frá okkar helstu fyrirmyndum. Í Danmörku er í gangi verkefnið High:five, sem hófst árið 2006 og tengir fyrrverandi fanga við fyrirtæki. Þau fyrirtæki sem taka þátt í verkefninu fá fjárhagslega hvata frá danska ríkinu, svo sem skattaívilnanir og styrki. Verkefnið hefur skilað góðum árangri: Um 70% þeirra sem fara í gegnum verkefnið fá fasta vinnu eða hefja nám. Þetta hefur leitt til þess að færri falla aftur í afbrot, sem sparar ríkinu stórar fjárhæðir í fangelsiskostnaði. Í Noregi er mikil áhersla lögð á endurhæfingu frekar en refsingu, og verkefni eins og WayBack veita einstaklingum með sakaferil stuðning í atvinnuleit og húsnæðismálum. Í Svíþjóð vinnur sænska fangelsismálastofnunin Kriminalvården náið með atvinnulífinu til að tryggja að fangar fái starfsþjálfun sem nýtist þeim þegar þeir ljúka afplánun. Þar hafa sum sveitarfélög einnig tekið upp þá stefnu að setja kvóta á ráðningar fyrrverandi fanga í opinber störf. Dæmi um ferlið hjá Dönum High:five hefur samband við yfirvöld í þeim landshluta þar sem starf býðst og er þeim gert að skipuleggja tveggja vikna ólaunað þjálfunartímabil sem hefst við lausn brotamanns.

Á sama tíma útvegar High:five fjármagn til að styðja við starfandi leiðbeinanda á vinnustaðnum meðan á þessu tímabili stendur. Yfirvöld undirbúa skrifleg gögn en High:five aðstoðar fyrirtækið við undirskriftir og skil á skjölum til viðeigandi yfirvalda. Vinnustaðurinn úthlutar leiðbeinanda sem hefur fengið viðeigandi þjálfun. Hann sér um að aðstoða einstaklinginn á upphafsstigi starfsins og gengur úr skugga um að allt gangi samkvæmt áætlun. Verkefnastjóri viðheldur reglulegu sambandi við leiðbeinandann. Eftir tvær vikur tilkynnir fyrirtækið/stofnunin High:five um að það hyggist ráða einstaklinginn og þurfi ekki frekari aðstoð. Fyrirtækinu/ stofnuninni er þó gert ljóst að það geti ávallt haft samband við High:five ef upp koma óvænt vandamál í tengslum við nýja starfsmanninn. Þetta virkar Tölulegar upplýsingar sýna að þessar aðferðir virka. Þær minnka líkur á endurkomu og stuðla þar af leiðandi að betra samfélagi. Það er einnig hagkvæmara fyrir samfélög að auðvelda einstaklingum að finna vinnu en að loka þá aftur inni, en endurkomutíðni fyrri fanga er oft há hjá þeim sem fá ekki stuðning eftir afplánun. Ef fyrirtæki og stofnanir tækju meiri samfélagslega ábyrgð væri það ekki aðeins til góðs fyrir einstaklingana sjálfa heldur einnig fyrir efnahag og samfélagslega velferð. Af hverju ættu íslensk fyrirtæki og stofnanir að taka meiri ábyrgð?

Á Íslandi eru að meðaltali 120-140 fangar í afplánun hverju sinni, og árlega ljúka tugir einstaklinga afplánun. Þrátt fyrir að margir þeirra vilji snúa við blaðinu og hefja nýtt líf standa þeir frammi fyrir fordómum og skorti á atvinnu- og menntunartækifærum. Ríkið gæti hvatt fyrirtæki með skattaafslætti, líkt og gert er í Danmörku. Fangelsin gætu veitt markvissari starfsþjálfun svo að einstaklingar komi út með færni sem nýtist á vinnumarkaði. Að lokum mætti efla fræðslu og vitundarvakningu um að fólk sem hefur afplánað dóm hafi rétt á nýju upphafi. Samfélagið á ekki að dæma fólk til ævilangrar útilokunar frá vinnumarkaði fyrir mistök sem það hefur gert í fortíðinni. Við eigum að leggja okkur fram við að skapa samfélag sem styður fólk til að gera betur og gefur því tækifæri til að byggja sig upp og koma inn í samfélagið á ný sem virkir og ábyrgir einstaklingar. Það er kominn tími til að íslensk fyrirtæki og stofnanir axli meiri samfélagslega ábyrgð og veiti fólki sem hefur lokið afplánun raunverulegt tækifæri til að byrja upp á nýtt. Einfaldar aðgerðir gætu skipt miklu máli Fyrirtæki og stofnanir á Íslandi hafa mikið svigrúm til að gera betur í þessum málum. Það er hægt að fara eftir fyrirmynd nágrannaþjóða okkar, sem oft eru töluvert á undan í þróun úrlausna þess málaflokks sem um ræðir. Eins er mikilvægt að nefna atriði á borð við skattaafslátt fyrir fyrirtæki sem ráða fyrrverandi fanga, starfsþjálfun og menntun innan fangelsa, þannig að fangar útskrifist með atvinnuhæfa færni. Aukinn stuðningur við atvinnuleit eftir afplánun væri einnig jákvætt skref. Að lokum Ef Ísland ætlar að minnka endurkomu og hjálpa þessum viðkvæma hópi að fóta sig í samfélaginu þarf að gera breytingar. Það er ekki nóg að sleppa fólki út úr fangelsi án stuðnings. Við þurfum að tryggja að það hafi raunveruleg tækifæri á vinnumarkaði og geti byggt sér betra líf. Það er kominn tími til að íslensk fyrirtæki og stofnanir axli meiri samfélagslega ábyrgð.

Allir eiga skilið annað tækifæri – leyfum öllum að vera með! Gréta Mar Jósepsdóttir Höfundur er stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur og sjálfboðaliði Rauða kross Íslands.

 

Þráinn Farestveit