Dómsmálaráðherra heimsækir Vernd

Dómsmálaráðherra heimsækir Vernd – Réttarvitund, endurhæfing og rafrænt eftirlit.

Þann 17. júní heimsótti Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra Vernd fangahjálp ásamt fulltrúum dómsmálaráðuneytisins. Tilefni heimsóknarinnar var að kynna sér starfsemi samtakanna og ræða framtíðarsýn í málefnum fanga og dómþola.

Vernd kynnti þá stefnu sína sem hefur mótast í rúm 63 ára starfsemi, þar sem megináhersla er lögð á mannúð, samfélagslega aðlögun og raunhæfar leiðir til að draga úr ítrekun brota. Samtökin hafa verið leiðandi í að bjóða úrræði utan hefðbundinna fangelsa og fagna auknum skilningi stjórnvalda á mikilvægi endurhæfingar.

Á fundinum lagði dómsmálaráðherra áherslu á að fangelsismál væru bæði viðkvæmur og flókinn málaflokkur, sem kallaði á skýra stefnu og samræmdar aðgerðir. Sérstaklega var rætt um notkun rafræns eftirlits sem mikilvægs úrræðis til að stytta vist í lokuðu rými og styðja við aðlögun einstaklinga að samfélaginu. Vernd styður slíka þróun og telur nauðsynlegt að styrkja notkun rafræns eftirlits sem hluta af mannúðlegri og árangursríkri fullnustu.

Einnig var fjallað um meðferð og endurhæfingu innan refsivistar og mikilvægi þess að stefnan taki mið af bættum lífsgæðum fanga, stuðningi við endurkomu þeirra til samfélagsins og virðingu fyrir réttindum þeirra. Vernd benti jafnframt á að bygging nýrra fangelsa ein og sér dugi ekki til árangurs – nauðsynlegt sé að skýrar línur liggi fyrir og að stefnan sé aðgengileg öllum sem koma að fangelsismálum.

Vernd fagnar því samtali sem átt hefur sér stað við ráðherra og ráðuneytið, og lýsir von um áframhaldandi samráð við mótun stefnu sem byggir á mannúð, skýrleika og virkri samfélagsþátttöku fanga.

 

 

Þráinn Farestveit