Nokkrir hópar í samfélaginu geta ekki notið hefðbundinnar prestsþjónustu með því að fara til kirkju þegar þeir hafa löngun til. Hér er að sjálfsögðu átt við fólk sem dvelst á sjúkrahúsum og stofnunum eins og fangelsum. Þessum hópi tilheyra þó með öðrum hætti sé þau sem búa við fötlun og þroskahömlun. Innflytjendur og flóttafólk geta líka verið í þessari stöðu. En öllum þeim stendur til boða að njóta sértækrar prestsþjónustu þjóðkirkjunnar sem sérþjónustuprestar inna af hendi. Þjóðkirkjan hefur semsé á að skipa vaskri sveit sem sinnir fólki í þessum sérstöku og viðkvæmu aðstæðum af virðingu og trúmennsku. Þá ber þess að geta að prestar sem stofnanir ráða til sín, eins og sjúkrahúsin, eru þjónandi prestar þjóðkirkjunnar. Þar er og öflugur hópur sem sinnir sérþjónustu. Helgihald hjá þessum hópum ber auðvitað merki aðstæðna þeirra og ólíkra þarfa. Mestur tími þjónustunnar fer þó í margs konar persónulega sálusorgun; sálusorgun fjölskyldna, maka og barna svo dæmi séu tekin. Þá er og hluti af starfinu einsleg prédikunarþjónusta. Sumir staldra við um skamma hríð í þessum sérþjónustusöfnuðum meðan aðrir eru bundnir þeim alllengi og enn aðrir svo að segja ævina út. Jólin alls staðar En jólin knýja dyra hjá sérþjónustunni eins og öðrum. Þó jólahaldið fari fram með öðrum hætti en venjulega þá er kjarninn sá hinn sami: gleði og fögnuður. Kirkjan.is spurði fangaprest þjóðkirkjunnar, sr. Sigrúnu Margrétar Óskarsdóttur, hvernig jólahaldið yrði í fangelsunum. „Þetta eru önnur jólin sem ég þjóna í fangelsunum,“ segir hún, „það var sérstakt að taka við starfinu um svipað leyti og heimsfaraldur stakk sér niður. Þjónustan er fjölbreytt og það eru engir tveir dagar eins.“ Sr. Sigrún segir að í fyrra hafi eingöngu verið boðið upp á rafrænt helgihald vegna kórónuveirufaraldursins; helgistund var tekin upp í Grensáskirkju og send til fanganna á jóladag. „Það segir sig sjálft að það er ekki leið sem er valin nema annað sé ekki í boði eins og raunin var þá.“ Hún segir að það sé tilhlökkunarefni að geta mætt á staðinn í ár. Jólamessur verða á jóladag á Sogni, Litla-Hrauni og Hólmsheiði. „Með mér fara söngelsku systkinin Anna Sigga og Jón Helgabörn ásamt Aðalheiði Þorsteinsdóttur undirleikara,“ segir sr. Sigrún. „Á Kvíabryggju mun sr. Aðalsteinn Þorvaldsson, sóknarprestur Setbergsprestakalls, sjá um jólamessuna.“ Sr. Sigrún segir að helgihald í fangelsi sé sérstaklega ánægjulegt og gott sé að verða vitni að því hvernig við verðum kirkja þegar komið sé saman í nafni Jesú Krists. „Við komum saman í matsalnum á Sogni, í íþróttahúsinu Litla-Hrauni og á bókasafninu á Hólmsheiði, þessir staðir eru sannarlega kirkjur þegar við heyrum Guðsorð, syngjum og biðjum saman,“ segir hún. Krefjandi og gefandi að þjóna þessum hópi  „Það er ljóst að ástæður eru margvíslegar fyrir fangavistun,“ segir hún, „mér finnst erfitt að verða vitni að því að sem samfélag skortir okkur úrræði fyrir hóp fólks sem á við flókinn vanda að stríða. Fólk sem glímir við fíknisjúkdóma eða flóknar geðraskanir og þarf á viðeigandi meðferð að halda sem fangelsi hafa ekki upp á að bjóða. Við verðum að gera gangskör í að dómskerfi, heilbrigðiskerfi og félagsleg þjónusta taki samtal af fullri einurð um að leysa betur úr vanda þessa hóps. Það gleðilega við þessa þjónustu er að eiga þessi fjölbreyttu samskipti.“ Í dag eru 141 einstaklingar að afplána í fangelsi og þar af eru átta konur. Á áfangaheimilinu Vernd eru 24 og 9 eru á ökklabandi. Afplánunarfangelsi ríkisins eru: Litla-Hraun, Sogn (opið fangelsi), Hólmsheiði (þar er og  gæsluvarðhaldsfangelsi) og Kvíabryggja sem er opið fangelsi.  Sr. Sigrún segir að hún og söngkonan, Anna Sigga, hafi brugðið undir sig betri fætinum 10. desember s.l. og farið á Kvíabryggju. „Jólaguðspjallið var flutt og sungin jólalög,“ segir hún. „Þarna sátum við sannarlega öll við sama borð, þau sem þarna starfa og dvelja lögðu sig fram um að kalla fram hátíðleikann sem tilheyrir þessum árstíma.“ Í jólahlaðborðið hafði verið lagður mikill metnaður sem var eins og á fínasta veitingastað og svo hafi salurinn verið fallega skreyttur. „Það var einstaklega ánægjuleg ferð,“ segir sr. Sigrún.

„Myndin var tekin á leiðinni vestur, jökullinn logaði í allri sinni dýrð,“ segir sr. Sigrún í lokin. Hún er vinstra megin á myndinni og Anna Sigga, söngkona, hægra megin hsh