Einn mikilvægasti þátturinn í öllum fangelsum hvort heldur þau eru ný eða gömul er að fangar hafi eitt- hvað jákvætt fyrir stafni.

Nú eru margir fangar fúsir til vinnu og þeim þarf að mæta með frambærilegum vinnutækifærum; sumir eru því miður óvinnufærir af ýmsum ástæðum eins og slysförum eða langvarandi neyslu og sukki, og svo er hópur þessum skyldur sem er illa fær til vinnu og oft af sömu ástæðum og hinn fyrri en getur þó sitthvað. Þá er lítill hópur sem þyrfti beinlínis á vinnuskólakennslu á að halda því hann hefur lítið fengist við almenna launavinnu. Svo eru náttúrlega einhverjir sem vilja bara ekki vinna og við því er svosem ekki mikið að gera annað en að beita ýmsum brögðum til að vekja einhverja vinnulöngun.

Þá er er þess að geta að nokkur hreyfing er á vinnuhópnum eðli máls samkvæmt, fólk kemur til afplánunar og lýkur síðan afplánun.

Síðast en ekki síst er mikilvægt að einhvers konar nám standi föngum til boða því nám er vinna. Reynsla af skólastarfi innan fangelsa er góð og oft hefur það gert gæfumuninn hjá föngum og orðið þeim hvati til að halda áfram námi eftir að fangvist lýkur. Margir fangar stunda fjarnám í einhverri mynd og það er mjög krefjandi. Kennsla í fangelsi er vitaskuld með öðrum blæ en í venjulegum skóla og kennarar gegna þar lykilhlutverki sem fræðarar og mannvinir því kennslan er ekki alltaf dans á rósum þótt hún sé mjög gefandi. Hlutur námsráðgjafans er ekki síðri og skiptir hér sköpum. Heillaráð hans hafa iðulega ráðið úrslitum hjá nemendum. Það er sömuleiðis ánægjuefni að verða vitni að því þegar fangar sitja sveittir yfir námsbókum sínum og eru að kenna hver öðrum.

Það getur því verið ýmsum vandkvæðum bundið að finna heppilega og sveigjanlega vinnu sem hentar föngum í ljósi þess sem áður sagði. Þess vegna reynir hressilega á frjóa hugsun og líflegt hugmyndaflug þeirra sem stýra atvinnumálum fanga og finna heppileg verkefni. Ekki má láta kostnað vegna nýrra atvinnutækifæra í fangelsum slá sig út af laginu því að sjálfsögðu er vonast til að þau skili einhverju jákvæðu. Nú er í vinnslu athyglisvert og frjótt samstarf milli nemenda í Listaháskóla Íslands og Litla-Hrauns sem felst í því að finna listrænt vinnutækifæri ef svo má segja. Einhver hlutur, gripur, tæki eða áhald, eftir hugmynd listnemans verður fullunninn á Litla- -Hrauni. Þetta er á vissan ögrandi verkefni sem verður fróðlegt að sjá hvað verður úr.

Góð og skynsamleg atvinnutækifæri þurfa að bera í sér jákvæða hvatningu til að vinna og helst að laða viðkomandi til sín og örva vinnandi hönd. Þessi hvatning þarf fyrst og fremst að snúa að einstaklingnum sjálfum. Hann þarf í fyrsta lagi að sjá að vinnan sem hann innir af hendi hafi einhvern tilgang og sé nauðsynleg. Viðkom- andi þarf líka að hafa einhvern fjárhagslegan hag af vinnunni sem munar um – taxti fangalauna þyrfti að vera umtalsvert hærri til að verða hvetjandi út af fyrir sig. Í því efni væri athugandi eftir því sem við ætti að vinnandi fangar væru á taxtakaupi verka- lýðsfélaga því það myndi gefa fangelsum frjálsari hendur með hvaða vinnu „megi“ vinna í fangelsi svo samkeppnisstöðu markaðarins sé ekki ruggað.

Störf krefjast mismikillar færni og menntunar. En öll störf eru uppbyggileg þegar öllu er á botninn hvolft. Vandi innan fangelsa er oft sá að vekja upp jákvætt viðhorf til vinnu en það er hægt með fjölbreyttri vinnu, vinnukennslu, hærra fangakaupi, markaðsvinnu, einstaklingsmiðaðri vinnu og umbunarkerfi fyrir þá sem vinna og eru í námi.

Hreinn S. Hákonarson