Þráinn Farestveit framkvæmdastjóri Verndar fór á fund félags- og vinnumarkaðsráðherra Guðmundar Inga Guðbrandssonar. Á fundinum var farið yfir ýmis málefni Verndar og ráðherra kynnt stefna félagasamtakanna, saga og framtíðarsýn. Einnig var rædd sú breyting sem gerð var árið 2013 þar sem félagasamtökum var gert að leita eftir stuðningi til ráðuneyta í stað fjárlaganefndar eins og hafði verið í langan tíma. Einnig var farið yfir rekstrarfyrirkomulag Verndar og framtíðarhorfur. Þá voru réttindi dómþola rædd og þar á meðal réttindi þeirra til atvinnuleysisbóta og greiðslur þeirra í atvinnutryggingarsjóð. Vernd hefur nú starfað í rúmlega 60 ár þar sem vegalausum og húsnæðislausum hefur verið veittur stuðningur. Allar götur frá stofnun samtakanna hefur hugmyndafræði Verndar verið sú að samtökin skyldu aðstoða hvern þann, sem tæki út refsingu eftir dómi. Honum skyldi hjálpað yfir fyrstu hindranir svo hann gæti aftur áunnið traust samfélagsins. Þá skyldi reynt að útvega honum húsnæði og vinnu og hvetja til sjálfshjálpar. Farið var yfir mikilvægi starfseminnar, forvarnagildi og mikilvægi þess að einstaklingar sem hljóta óskilorðsbundna dóma njóti samfellu í úttekt dóma. Það hljóti alltaf að vera vilji samfélagsins að árangur sé sýnilegur af starfsemi sem þessari og einstaklingurinn komi endurhæfður út í samfélagið eftir slíka vistun. Þá hafa samtökin verið fljót til að tileinka sér ný viðmið og stuðlað að nýjum hugtökum sem koma skjólstæðingum samtakanna vel. Við þökkum ráðherra fyrir að gefa sér tíma til að fara yfir málin með samtökunum og gagnlegt samtal um starfsemi Verndar og mikilvægi fullnustunnar utan fangelsa. Það er mikilvægt fyrir samtökin að skynja þann áhuga og skilning sem ráðherra sýndi á meðan heimsókninni stóð.