Á Íslandi er ekkert unglingafangelsi. Um vistun ungmenna undir 18 ára aldri er almennt farið eftir þeim ákvæðum sem gilda um vistun barna á meðferðarheimilum undir yfirumsjón Barnaverndarstofu.
Þegar fangelsismálastofnun berst dómur til fullnustu þar sem dómþoli er yngri en 18 ára og er dæmdur í óskilorðsbundið fangelsi skal Barnaverndarstofu þegar í stað tilkynnt um það. Ber Barnaverndarstofu að kanna hvort að mögulegt er að dómþoli afpláni refsingu sína á meðferðaheimili á vegum stofunnar, enda liggi að jafnaði fyrir vilji hans til slíkrar afplánunar. Ef slík ráðstöfun kemur til greina skal Barnaverndarstofa afla afstöðu viðkomandi barnaverndarnefndar til málsins. Sama málsmeðferð skal viðhöfð þegar um er að ræða ungling sem úrskurðaður hefur verið í gæsluvarðhald. Skal slík vistun framkvæmd í samráði við rannsóknaraðila málsins. Barnaverndarstofa velur tiltekið meðferðarheimili í hvert skipti og metur meðal annars hvort að ástæða sé til að viðkomandi einstaklingur fari í greiningar- og/eða meðferðarvistun á meðferðastöð ríkisins, Stuðla. Áður en að ákvörðun um slíka vistun fer fram skal liggja fyrir skriflegur samningur við fangann og forsjáraðila hans um vistun í meðferð í að minnsta kosti 6 mánuði óháð lengd refsitímans eða úrskurðs barnaverndarnefndar.