Stutta svarið við þessari spurningu er já. Í fyrsta málslið 1. mgr. 142. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940segir:
 
Hver, sem skýrir rangt frá einhverju fyrir rétti eða stjórnvaldi, sem hefur heimild til heitfestingar, skal sæta fangelsi allt að fjórum árum.
Hafi skýrsla verið heitfest skal það virt til þyngingar refsingar, samanber annan málslið, en sé skýrsla röng í atriðum sem ekki varða málefnið sem verið er að kanna, má beita sektum eða fangelsi allt að einu ári.


Það telst enn alvarlegra brot að bera ljúgvitni í máli sé það gert með það fyrir augum að saklaus maður verði sakaður um eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, en samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laganna varðar það allt að 10 ára fangelsi, og fangelsi allt að 16 árum hafi brotið haft, eða því verið ætlað að hafa í för með sér velferðarmissi fyrir nokkurn mann.

Þessar reglur gilda þó ekki um alla sem bera vitni í máli, því þar er sakborningurinn sjálfur sérstaklega undanskilinn. Samkvæmt 143. gr. almennu hegningarlaganna varðar það sökunaut sjálfan ekki refsingu þó að hann skýri rangt frá málavöxtum. Þeim manni skal ekki heldur refsað, sem rangt hefur skýrt frá atvikum vegna þess að réttar upplýsingar um þau hefðu getað bakað honum refsiábyrgð í slíku máli, eða hann hafði ástæðu til að halda, að svo væri.
 
Visindavefurinn