Fangelsisminjasafn
Fangelsisminjasafn
Mjög víða í útlöndum er að finna söfn sem geyma sögu fangelsa. Stundum eru þessi söfn í gömlum fangelsum og geta þá safngestir farið um og skoðað hvernig aðbúnaði fanga var háttað. Að sjálfsögðu er að finna í þessum fangelsisminjasöfnum flest sem tilheyrði hversdagslegu lífi í fangelsum, tæki og tól, amboð og áhöld. Líka hvers kyns pyntingatól sem notuð voru fyrr á tímum enda þótt tilhneiging hafi verið til að farga þeim svo sagan yrði fegurri. Þessi söfn hafa þó nokkurt aðdráttarafl eins og Clink-fangelsissafnið í London. Í Danmörku var hluta af hinu kunna Horsensfangelsi breytt í fangelsisminjasafn sem er mjög nútímalegt. Af öðrum toga en þó mjög skyldum er í borginni Lviv í Úkraínu fangelsisminjasafn sem segir sögu fólks sem ógnarstjórnir nasista og kommúnista fangelsuðu og snertu greinarhöfund djúpt er hann skoðaði það fyrir fáeinum árum.
Markmiðið með söfnum af þessu tagi er að varðveita og segja sögu fangelsa; vekja athygli á sögu fólksins sem var frelsissvipt og mannréttindum þess.